Sett inn

Segðu mér: Stefán Sturla í spjalli við Sillu á Rás 1

Stefán Sturla

Í morgun átti Sigurlaug Margrét Jónasdóttir skemmtilegt samtal við Stefán Sturlu, höfund spennusögunnar FLÆKJUROF:

Hlustið hér.

Sett inn

Bráðum kemur út ný spennusaga

Flækjurof er þriðji og síðasti hluti þríleiksins um lögreglukonuna Lísu og aðstoðarfólk hennar eftir Stefán Sturlu.

Fyrri bækur þríleiksins eru:

•   Fuglaskoðarinn (2017)

•   Fléttubönd (2018)

Neyðarkall berst úr dalnum endalausa. Björgunarsveitin er kölluð út, þyrlan er send af stað með Lísu og annað starfsfólk rannsóknarlögreglunnar. Hvað hefur gerst?

Lesendur fylgjast með óvæntum atburðum og margar spurningar vakna. Við sögu koma kunnuglegar persónur úr fyrri bókum þríleiksins: Lísa, Kári, Björn Bangsi, Sigrún og fleiri.

Fyrir utan leitina að skýringum á hinum óhugnanlegu atburðum sögunnar er ekki síður áhugaverður sá þráður sem snýst um Kára og líf hans í fortíð og nútíð.

Þið fáið meira að heyra þegar bókin kemur út.

Sett inn

Verk Guðmundar Steinssonar í Þjóðleikhúskjallaranum

Leiklestraveisla til heiðurs leikskáldinu Guðmundi Steinssyni verður í Þjóðleikhúskjallaranum á tímabilinu 26. október til 7. nóvember 2019.

Í tilefni af þessum ánægjulegu tíðindum fæst heildarsafn leikrita Guðmundar nú á lágu verði meðan birgðir endast. Smellið hér!

Verkið er tæplega 1400 blaðsíður í þremur bindum. Jón Viðar Jónsson ritar ítarlegan inngang.

DAGSKRÁ:

lau. 26. okt. kl. 16:00
Mælt fyrir minni skáldsins
– Umsjón: María Kristjánsdóttir og Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir

Viðfangsefni og þemu skáldsins kynnt með lestri víða úr lífsverkinu, m.a. úr Forsetaefninu sem var frumflutt í Þjóðleikhúsinu fyrir 55 árum, þann 21. október 1964.

sun. 27. okt. kl. 19:30 og þri. 29. okt kl. 19:30
Þjóðhátíð
leiklestur
– Leikstjóri: Sveinn Einarsson

fim. 31. okt kl. 19:30 og sun. 3. nóv kl. 16:00
Stundarfriður
leiklestur
– Leikstjóri: Benedikt Erlingsson

fim. 7. nóv. kl. 19:30 og sun. 10. nóv. kl. 16:00
Katthóll
leiklestur
– Leikstjóri: Stefán Baldursson

Leikritið Katthóll hefur aldrei verið flutt á sviði.

Sett inn

Hamingjan er stefnumál

Það eru varla neinar auglýsingar í Bútan og neonskilti voru bönnuð þar til fyrir nokkrum árum. Þó tek ég eftir einu handmáluðu skilti sem er fest við tvær spýtur við vegarkantinn:

Þegar síðasta tréð hefur verið höggvið,
þegar síðasta áin hefur þornað upp,
þegar síðasti fiskurinn hefur verið veiddur,
þá fyrst skilur maðurinn að hann getur ekki borðað peninga.

Eric Weiner: Hamingjulönd – Landafræði lukkunnar bls. 66

Sett inn

Það er bókamarkaður úti í Örfirisey

Nú stendur yfir bókamarkaður Forlagsins á Fiskislóð 39. Hann er opinn alla daga til og með 2. október.

Ormstunga býður nokkra titla á kostakjörum:

  • Sauðfjárávarpið eftir Hákon J. Behrens @ 890 kr.
  • Síðasti elskhuginn eftir Val Gunnarsson @ 890 kr.
  • Endimörk heimsins eftir Sigurjón Magnússon (tilnefnd til Ísl. bókmenntaverðlaunanna 2012)  @ 790 kr.
  • Fuglaskoðarinn eftir Stefán Sturlu @ 490 kr.
  • Með skör járntjaldsins eftir Jón Björnsson @ 890 kr.
  • Blómin frá Maó eftir Hlín Agnarsdóttur @ 890 kr.
  • Dröfn og Hörgult eftir Baldur Óskarsson @ 490 kr.
  • Ekki láir við stein eftir Baldur Óskarsson @ 490 kr.
  • Bókaránið mikla eftir Korsgaard & Surrugue @ 490 kr.
  • Ljóðleg eftir Berglindi Gunnarsdóttur @ 490 kr.
Sett inn

„Af hverju viltu ekki vinna, Loftur?“

„Ég er þeirrar skoðunar að það að mæta í vinnuna sé skýrt merki um lélegt sjálfsmat og beri með sér að viðkomandi, sá sem í vinnuna mætir, hafi litla sem enga sjálfsvirðingu. Ég met líf mitt, þetta eina sem ég á, einfaldlega það mikils að ég er ekki til í að skipta á því og peningum. Það finnst mér vera merki um heilbrigt og gott sjálfsmat – sjálfsvirðingu. Alltaf þegar ég sé fólk mæta í vinnuna að morgni dags hugsa ég: Þarna er manneskja sem hatar sjálfa sig.“

Hákon J. Behrens: Sauðfjárávarpið, bls. 57

Sett inn

Bjuggust ekki við eftirköstum

Reykjavík, 23. febr. — OÓ.
ATÓMSPRENGJUÁRÁSIN, sem sett var á svið í Seli menntaskólanema í síðustu viku, hefur vakið mikla athygli. Eins og sagt var frá í Alþýðublaðinu í gær fór „skemmtunin“ þannig fram að spiluð var segulbandsspóla með tilbúnum fréttum á þann veg að atómsprengjuárás væri yfirvofandi á Keflavíkurflugvöll.

Svo vel tókst þessi flutningur, að margir nemendanna, sem ekki vissu að hér var um gabb að ræða, voru gripnir mikilli hræðslu og fengu grátköst og það jafnvel löngu eftir að sendingunni lauk og búið var að segja þeim að árásarfréttirnar væru tilbúningur einn.

Styrjöldin í Selinu (2019) bls. 118

Sett inn

Bókinni þakkað

Þær bíða og bæra ekki á sér. Hljóðar og hlédrægar standa þær í röðum með veggnum. Þær sýnast sofa en frá hverri þeirra horfir nafn við þér eins og opið auga. Þær fara ekki fram á neitt, krefjast engrar athygli, leita ekki á. Þær bíða uns þú gefur þig að þeim — þá birta þær þér það sem býr í þeim.

Þú gengur að hillunni. Heiti bókanna horfa við leitandi sjónum þínum eins og trúföst augu, þögul og þolinmóð. Og hönd þín þreifar um raðir bókanna … eins og þegar fingur líða yfir nótur til þess að finna lykil að ákveðnu lagi. Þú opnar eina, lest línu, erindi, en það hljómar ekki skýrt að þessu sinni, snertir ekki neitt í þér. Þú setur hana á sinn stað aftur, vonsvikinn, nærri hranalega … þar til þú finnur BÓKINA … þá, sem þér er að skapi þessu sinni og vekur enduróma djúpt í huga þér.

BÓKIN. Tryggasti félaginn og sá hljóðlátasti. Þetta eru þakkarorð fyrir eilíf fyrirheit áhrifa þinna; þökk fyrir það sem þú hefur verið mönnum á myrkum stundum og þrautasömum. Með undursamlegu segulafli hefurðu seitt vanans sljóu deyfð af vanræktum sálum. Öðrum varstu styrkjandi hvíld við andlegri áreynslu. Í örvona mönnum og uppgefnum vaktirðu vonarríka drauma. Þeim sem einmana þjáðust varstu andríkur vinur. Eirðarlausum hugum veittirðu hvíld og órólegum hjörtum frið. Hlédræg ertu og lítilþæg … leitar ekki á. En þú ert viðbúin, þegar á þig er kallað, og þegar hjarta vort snertir þig rýfur þú fásinni hversdagsins og birtir oss heim sem er meiri en vor …

Stefan Zweig (TEXTI Á GÖMLU BÓKMERKI FRÁ SETBERGI S/F)

Sett inn

Ökuljóð

 Geta englar dáið?
spurði drengurinn.
Nei, nei!
sagði fólkið í bílnum.
Getur þeir staðið þegar þeir fljúga?
spurði drengurinn.
Engan dónaskap væni minn farðu að sofa
sagði fólkið í bílnum.
Ég getur ekki sofið það er svo mikið ryk
sagði drengurinn.
Það er kannski englaryk!
sagði amma og hló.
Það er kannski englaryk!
sagði afi og hló.
Það er kannski englaryk!
sagði allt fólkið í bílnum og skellihló.

Stefán Sigurkarlsson. (2013). Ósamstæður