Ágúst Borgþór Sverrisson

Ágúst Borgþór Sverrisson er fæddur á Seltjarnarnesi árið 1962 og býr nú í Vesturbænum. Hann hefur sent frá sér eina ljóðabók, sex smásagnasöfn og tvær skáldsögur.

Ágúst er raunsæishöfundur og sögur hans einkennast af knöppum stíl. Texti hans getur þó orðið ljóðrænn og myndríkur. Sögurnar fjalla oft um áráttugjarnt fólk og vanrækt börn. Í þeim ríkir þó ekki eintómt svartnætti en gjarnan bregður höfundur upp myndum af erfiðum og afhjúpandi augnablikum í lífi persóna sinna.

Fyrir utan bókarformið hafa sögur Ágústs birst víðsvegar, t.d. í Tímariti Máls og menningar og í Ríkisútvarpinu á Rás 1. Nokkrar sagna hans hafa unnið til verðlauna og ein þeirra, Afraksturinn, birtist í þýska safnritinu Wortlaut Island, sem geymir sögur og ljóð eftir helstu samtímahöfunda okkar.

Vorið 2001 hlaut hann fyrstu verðlaun í smásagnasamkeppni hjá vefgáttinni Strik.is fyrir söguna Hverfa út í heiminn, en 350 sögur bárust í keppnina. Dómnefndin var einróma í vali sínu á sigursögunni og í áliti hennar kemur m.a. fram að sagan sé „ekki einasta ákaflega vel stíluð og uppbyggð, heldur til marks um að höfundurinn hefur þrauthugsað form smásögunnar og notar möguleika hennar af listfengi og kunnáttu. Sögumaður rifjar upp bernskuár í skugga bróður sem dó; frásögnin einkennist af hlýju, mannskilningi og fínlegum húmor.“ Sagan birtist sama ár í Sumarið 1970.

Ágúst Borgþór Sverrisson á fjölbreyttan starfsferil að baki; starfaði meðal annars sem blaðamaður á Vísi.is þar sem bókmenntir og menningarmál voru helstu verksvið hans. Hann vann við textasmíð og prófarkalestur hjá Miðlun og Íslensku auglýsingastofunni og starfar nú hjá þýðingarstofunni Skjali. Þá hefur Ágúst Borgþór haldið námskeið í smásagnaskrifum.

Meðal helstu áhrifavalda sína telur Ágúst ýmsa bandaríska smásagnahöfunda, t.d. Raymond Carver. Þeir íslensku höfundar sem Ágúst hefur helst sótt áhrif til síðustu árin eru hins vegar Indriði G. Þorsteinsson, Ólafur Gunnarsson, Bragi Ólafsson og Gyrðir Elíasson.

Ágúst er hamingjusamlega giftur tveggja barna faðir.

Sjá einnig Bókmenntavef Reykjavíkurborgar.

 


Helstu verk:

1987   Eftirlýst augnablik (ljóð)

1988   Síðasti bíllinn (smásögur)

1995    Í síðasta sinn (smásögur)

1999   Hringstiginn (smásögur)

2001   Sumarið 1970 (smásögur)

2003  Fyrsti dagur fjórðu viku (smásögur)

2004  Tvisvar á ævinni (smásögur)

2007   Hliðarspor (skáldsaga)

2011    Stolnar stundir (skáldsaga)

2015   Inn í myrkrið (skáldsaga)