Guðmundur Óskarsson

Gudmundur_Oskarsson

Guðmundur fæddist í Reykjavík þann 22. desember 1978. Elstur fjögurra systkina ólst hann upp í einu af úthverfum höfuðborgarinnar, Grafarvoginum, á sveitarmörkum þar sem hestar þvældust oft fyrir vélknúinni umferð.

Að loknum menntaskóla tók við óstöðugt æviskeið þar sem skiptust á tilraunir til að festa rætur í námi og ýmis störf og uppákomur: golfvallarumhirða, starfsmaður á lager, sumardvöl á Spáni, hjólbörusveinn við uppgröft Þjóðminjasafns Íslands í Reykholti og að Hólum í Hjaltadal o.fl. Frá árinu 2004 hefur Guðmundur verið óbreyttur skrifstofumaður hjá Landsbanka Íslands, þeim gamla og nýja, og sinnt ritstörfum á kvöldin.

Í febrúar 2003, eftir nokkurra ára fálm og dútl, ákvað hann að láta undan rithneigð sinni. Síðan hafa þrjár bækur komið út: Smáprósasafnið Vaxandi nánd – orðhviður (2007) og skáldsögurnar Hola í lífi fyrrverandi golfara (2008) og Bankster (2009).

Nýjasta bók Guðmundar er skáldsagan Villisumar (2016).