Hallveig Thorlacius

Hallveig Thorlacius (f. 1939) hefur starfað sem brúðuleikari árum saman og rekur brúðuleikhúsið Sögusvuntuna. Hún hefur einnig skrifað spennusögur fyrir unga lesendur: Martröð sem kom út 2008, Augað (2013) og Svarta paddan (2016).

Hallveig stundaði nám við háskólann í Moskvu og lærði síðar dramatúrgíu fyrir brúðuleikhús í Tékklandi. Hún hefur starfað sem leikhússtjóri, handritshöfundur, brúðusmiður, brúðustjórnandi, leikmyndahöfundur, leikkona og trúður. Hún var einn af stofnendum Leikbrúðulands þar sem hún starfaði í rúm 20 ár.

Síðar stofnaði hún sitt eigið leikhús, ferðaleikhúsið Sögusvuntuna sem hefur verið á stöðugu flakki um landið, um Norðurlöndin, Grænland, Bretland, Bandaríkin, Kanada og Rússland. Árið 2000 ferðaðist Sögusvuntan vítt og breitt um Íslendingabyggðir Kanada og Bandaríkjanna á vegum Landafundanefndar.

Nú um stundir ferðast Hallveig ásamt samstarfsfólki með sýninguna Krakkarnir í hverfinu sem fjallar um ofbeldi gegn börnum.

Babúska er fyrsta bók hennar fyrir fullorðna.

Árið 2021 fékk Hallveig ásamt Þórhalli Sigurðssyni heiðursverðlaun Sviðslistasambands
Íslands.