Hermann Hesse

Þegar Hermann Hesse (f. 1877) lést árið 1962, 85 ára að aldri, voru bækur hans næstum orðnar 40 talsins og hafa nú verið prentaðar í yfir 70 milljón eintökum út um víða veröld. Einungis fimmti hluti þessa heildarupplags er á móðurmáli höfundar, þýsku. Í Bandaríkjunum hafa selst um 16 milljónir bóka eftir Hesse, í Japan 15 milljónir og í Suður-Ameríku um 6 milljónir.

Hesse naut strax í upphafi ferils síns talsverðra vinsælda og velgengni. Hann var samt tíðum litinn hornauga af löndum sínum, ekki síst á tímum þriðja ríkisins. Hann fékk Nóbelsverðlaunin 1946 og óx þá mjög vegur hans heima og á alþjóðavettvangi og bækur hans voru þýddar á öll heimsins tungumál.

Sléttuúlfurinn í þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur er fyrsta verk Hesses sem kemur út á bók hér á landi.