
Nick Hornby fæddist árið 1957 og býr í norðurhluta Lundúna með konu sinni og syni. Hann hefur skrifað nokkrar bækur. Þekktastar eru: Fever Pitch (1992, kom út á íslensku 2000 undir heitinu Fótboltafár), High Fidelity (1995), About a Boy (1998, kom út í íslenskri þýðingu Eysteins Björnssonar undir heitinu Saga um strák), How to be Good (2001), 31 Songs (2003) og A Long Way Down (2005). Nýjasta bók hans er skáldsagan Funny Girl (2014).
Nick Hornby starfaði fyrst sem kennari en eftir að Fever Pitch kom út sneri hann sér að ritstörfum og er nú orðinn einn af þekktustu rithöfundum Englendinga. Hann heldur hinn breska húmor í heiðri og texti hans einkennist af vissu alvöruleysi og lítilli virðingu fyrir viðteknum „æðri“ gildum. En að baki léttleikanum leynist samt hlýr mannskilningur höfundar og einlæg virðing fyrir alvöru lífsins.