Vladimir Nabokov

Einhver merkasti skáldsagnahöfundur tuttugustu aldar, Vladimir Vladimirovitsj Nabokov, fæddist í Sankti Pétursborg hinn 23. apríl 1899 (sumir telja hann reyndar fæddan 22. apríl, en við höldum okkur við 23. því að á þeim degi er alþjóðlegur dagur bókarinnar og bæði Shakespeare og Halldór Laxness fæddust þennan dag). Nabokov lést 2. júlí 1977 í Montreux í Sviss.

Nabokov var af göfugum ættum. Hann lærði á unga aldri ensku og frönsku og varð að eigin sögn fullkomlega þrítyngdur. Hann tók stefnu á skáldskapinn þegar á unglingsárum og gaf út tvær ljóðabækur í Rússlandi, 1916 og 1918. Hann fékk líka snemma áhuga á fiðrildum og var æ síðan í miklu áliti sem sérfræðingur á því sviði.

Árið 1919 hélt Nabokov með foreldrum sínum til Englands þar sem hann lagði stund á háskólanám í Cambridge, fyrst í dýrafræði en síðar frönskum og rússneskum bókmenntum. Hann hélt áfram að skrifa ljóð, aðallega á rússnesku en einnig eitthvað á ensku. Til Berlínar fluttist hann svo 1922 og dvaldist þar meðal rússneskra útlaga til ársins 1937. Á þessum árum og á tímabilinu 1937–1940, þegar hann bjó í París, skrifaði Nabokov níu skáldsögur, allar á rússnesku. Þessar sögur skrifaði hannundir dulnefninu V. Sirin. Þar á meðal var Vörnin  árið 1930 (Zasjíta Lúsjina á rússnesku) sem kom út í enskri þýðingu (The Defense) 1964; hún var sú þriðja í röðinni. Sjötta skáldsagan, Kamera obskura, kom út 1933. Hún var síðar þýdd á ensku og hét þá Camera obscura en var síðar breytt af höfundi og gefin út undir nafninu Laughter in the Dark 1938. Þessi saga kom út 1970 hjá Prentsmiðju Jóns Helgasonar undir heitinu Elsku Margot. Álfheiður Kjartansdóttir íslenskaði.

Áður en hann fluttist til Bandaríkjanna með konu sinni og syni árið 1940 hafði hann hafið tilraunir við að skrifa á ensku. Útkoman var The Real Life of Sebastian Knight sem út kom 1941. Sex árum síðar braut hann endanlega ísinn vestanhafs með bókinni Bend Sinister sem aflaði honum bæði virðingar og háskólastarfs, fyrst við Stanford, þá Wellesley og að lokum við Cornell-háskólann þar sem hann starfaði á árunum 1948 til 1959.

Nabokov varð fyrst frægur þegar bandaríska útgáfan af Lolitu kom út 1958. Þetta sérviskulega meistarastykki kom fyrst út í París 1955 án þess að nokkur tæki eftir því. En í Ameríku vakti bókin feiknalega athygli, bæði hrifningu og hneykslan ,og reyndareinnig fordæmingu því söguefnið er í meira lagi eldfimt. Andhetjan Humbert Humbert leggur lag sitt við mjög ungar stúlkur og verður gagntekinn af hinni tólf ára gömlu Lolitu. Lolita kom út á íslensku 2014 í þýðingu Árna Óskarssonar.

Velgengni Lolitu var slík að höfundurinn sagði starfi sínu lausu, fluttist til Sviss og hélt þar áfram að senda frá sér skáldsögur fram á elliár. Hann bjó þar til æviloka á hóteli (hann eignaðist reyndar aldrei eigið þak yfir höfuðið þrátt fyrir góðar tekjur) og gat nú ótruflaður af kennslu- og fræðistörfum einnig undirbúið enskar útgáfur af rússneskum bókum sínum.

Orðstír Nabokovs náði hámarki með sögum hans Pale Fire (1962) og Ada (1969). Sú fyrrnefnda hefst á 999 lína kvæði, skrifuðu af nýlátnu bandarísku ljóðskáldi. Afgangurinnaf bókinni er um rannsóknir starfsfélaga skáldsins á kvæðinu og umfjöllun um það. Í hinni síðarnefndu birtist aftur hugmyndin um þráhyggjuna og löngunina eftir óleyfilegri kynferðislegri ánægju. Söguhetjan, karlmaður á tíræðisaldri, skrifar endurminningar sínar og rifjar upp ástarsamband við systur sína, sem bókin dregur nafn sit af.

Nabokov þvertók alltaf fyrir boðskap eða þjóðfélagslega ádeilu í verkum sínum og hélt því ávallt fram að hið fagurfræðilega skipti höfuðmáli. Þess vegna hefur hann ekki alltaf verið hátt skrifaður meðal ýmissa félagslega þenkjandi bókmenntamanna. En að öllum líkindum er aðdáendahópurinn miklu stærri.