Efni
Saga um strák kom fyrst út á frummálinu (About a Boy) 1998 og sló strax rækilega í gegn og hefur verið þýdd á fjölda tungumála. Kvikmyndin sem gerð var eftir sögunni naut einnig mikilla vinsælda hér á landi sem annars staðar.
Will er 36 ára gamall, hefur aldrei á ævi sinni unnið handtak og hegðar sér eins og táningur. Einhleypur og barnlaus lýgur hann upp á sig syni til þess að komast yfir ungar og fallegar konur í Félagi einstæðra foreldra. Í þeim félagsskap kynnist hann Marcusi, elsta tólf ára strák í heimi.
Marcus er sonur einstæðrar móður og verður fyrir aðkasti í skólanum. Hann hefur áhyggjur af mömmu sinni en þegar Will kemur til sögunnar tekur líf mæðginanna nýja stefnu – Marcus byrjar að átta sig á tilverunni og hver veit nema honum takist að hjálpa Will að fullorðnast.