Fölnaðar framtíðarmyndir

Um Bankster eftir Guðmund Óskarsson

Morgunblaðið, 12. des. 2009, Þormóður Dagsson

SÖGUHETJAN Markús sér framtíð sína í hillingum og hún er ekki ósvipuð tölvuteiknuðu myndunum í kynningarbók um framtíðarskipalag miðbæjarins og hafnarbakkans – þar sem tónlistar- og ráðstefnuhúsið er „demantshnullungurinn í kórónunni“. Þegar Markús missir vinnuna í bankanum molnar þessi draumsýn og verður að engu. Hann situr uppi með sjálfan sig, nútíðina og fortíðina og hann setur kynningarbókina upp í hillu hjá hinum skáldsögunum.

Þær eru nokkrar kreppubækurnar í jólabókaflóðinu í ár eins og við mátti búast og skoða fjármálahrunið úr öllum áttum. Í heimi skáldsagna og fagurbókmennta er viðfangið svolítið hættulegt, kannski stendur það okkur ennþá of nærri eða jafnvel er kreppan á vissan hátt orðin klisjuleg. Það fylgdu mér alla vega ýmsir fordómar inn í lesturinn.

Í dagbókinni er fylgst með hægu en öruggu falli söguhetjunnar, frá öryggi og óttaleysi niður í algjöra örvæntingu. Það er ákveðið þyngdarleysi í frásögninni. Hún er leikandi létt, algjörlega áreynslulaus og einlæg. Texti Guðmundar er engu að síður ígrundaður, grípandi, hnyttinn og ber merki um næmt innsæi höfundar. Hann nær að hrífa lesandann, fær hann til að staldra við lýsingar og vangaveltur um hversdagslegustu hluti. Það er kannski einmitt þarna sem færni
Guðmundar skín skærast. Dagbókarformið gefur höfundinum jafnframt visst frelsi sem hann notfærir sér vel og á sama tíma ljær það innihaldinu aukinn trúverðugleika.

Bankster er sú skáldsaga sem hefur komið mér hvað mest á óvart í ár. Sagan er einlæg, áreynslulaus, skemmtileg og hrífandi. Dagbókarskrif Markúsar draga fram næma og hrífandi samfélagslýsingu út frá sjónarhóli einstaklingsins á einhverjum stórbrotnustu tímum lýðveldisins. Og inni í þessu öllu saman er afar falleg og tregablandin ástarsaga.