Skráð

Á hundrað ára ártíð Þorvalds Thoroddsen

Vel að reikna Valdi kann,
völ ef betri’ ei ættum
sveitarstjóra held eg hann
hérna setja mættum.

Þannig kvað Jón Thoroddsen, skáld og sýslumaður, um son sinn Þorvald ungan, líklega á Leirá í Leirársveit. Þorvaldur Thoroddsen fæddist sumarið 1855 í Flatey á Breiðafirði, nánar tiltekið 6. júní kl. 9 um kvöldið eins og hann tiltekur í minningum sínum. Hann var fyrsta barn foreldra sinna en mörgum árum áður hafði faðir hans eignast dóttur, Elínu Guðrúnu, síðar Blöndal. Þriggja vikna gamall fluttist Þorvaldur með foreldrum sínum að Haga á Barðaströnd þar sem þeim búnaðist vel. Vorið 1862 fluttust hjónin með þremur sonum sínum að Leirá.

Móðir Þorvalds var Kristín Ólína Þorvaldsdóttir, yngri dóttir Þorvalds Sívertsen, bónda og alþingismanns í Hrappsey. Jón sýslumaður og Kristín Ólína eignuðust 8 börn, 7 syni og eina dóttur. Upp komust 4 synir: auk Þorvalds Þórður læknir, Skúli sem varð m.a. blaðaútgefandi, ritstjóri, lögfræðingur og sýslumaður, og yngstur var Sigurður, fyrsti verkfræðingur landsins. Þórður og Skúli voru báðir alþingismenn um árabil.

Snemma hneigðist hugur Þorvalds til náttúruskoðunar og hann varð fljótt leikinn í reikningi og stærðfræði – svo mjög að skáldið, faðir hans, kastaði fram vísunni hér að ofan. Á Leirá undi Þorvaldur sér löngum stundum einn úti um holt og móa við að safna jurtum og steinum en þótti súrt að enginn vissi deili á þeim og ekki var til neins að spyrja. Það var helst að fólk vissi eitthvað um fugla. Hann reyndi því strax í æsku að fræðast frekar með lestri alþýðlegra þekkingarrita á sviði náttúrufræði, landafræði og sögu. En það var ekki um auðugan garð að gresja í Leirársveit. Hann nefnir þó tímaritið Nýja sumargjöf sem var í miklu uppáhaldi hjá honum en það kom út á árunum 1859 til 1865 og var einkum ætlað börnum og unglingum.

Jón Thoroddsen, faðir Þorvalds, lést 1868 tæplega fimmtugur að aldri en tveimur árum áður hafði Þorvaldur farið alfarinn til Reykjavíkur til að búa sig undir skóla. Þá var hann 11 ára. Honum var komið fyrir hjá Jóni Árnasyni bókaverði og þjóðsagnasafnara sem var kvæntur móðursystur hans, Katrínu Þorvaldsdóttur. Þau reyndust honum sem bestu foreldrar og honum sóttist undirbúningurinn undir Lærða skólann nokkuð vel þó að „málfræðistagl“ ætti ekki við hann. Að eigin sögn var hann ekki hneigður fyrir „grammatík“ og latínukunnáttunni var áfátt þegar hann var tekinn inn í skólann. En með iðni og ástundun komst hann vel inn í latínuna og það kom sér vel við samningu Landfræðissögunnar því að þá þurfti hann að lesa fjölmargar latneskar bækur.

Á skólaárunum hjálpaði Þorvaldur Jóni Árnasyni, fóstra sínum, við bókavörsluna  á Landsbókasafni, sem þá hét Stiftsbókasafn og var á lofti dómkirkjunnar, og komst þannig í tæri við fjölda bóka á þeim sviðum sem hann hafði mestan áhuga á, sögu, landafræði og náttúrufræði. Hann eyddi miklum tíma í að kynna sér þessar bækur og hófst þá þegar handa við að viða að sér efni sem varð kveikjan að Landfræðissögu Íslands (sem hann hóf að rita 1887). Uppáhaldsbók hans var hið mikla rit um heimsmynd raunvísindanna, Kosmos, eftir Alexander von Humboldt. Þorvaldur las öll fjögur bindin spjaldanna á milli, aftur og aftur! En þessi mikla fróðleiksfýsn kom að litlu gagni í Lærða skólanum. Hann útskrifaðist næstlægstur vorið 1875!

Strax eftir stúdentspróf sigldi Þorvaldur til náms og lagði stund á náttúrufræði með dýrafræði sem aðalgrein við háskólann í Kaupmannahöfn 1875–1880. Fjárhaldsmaður hans þar var Jón Sigurðsson, góðvinur Jóns Árnasonar og Jóns, föður Þorvalds. Þorvaldur hafði mikil samskipti við Jón forseta og bar honum afar vel söguna þrátt fyrir takmarkaðan skilning Jóns á náttúrufræðum. Oftar en einu sinni nefndi hann við Jón að nauðsynlegt væri að fræða íslenska alþýðu um náttúruvísindi. Jón tók því víst dauflega og sagði eitt sinn: „Þeir hafa sögurnar og þurfa í rauninni ekki annað.“

Árið 1876 hljóp á snærið hjá Þorvaldi en þá var hann fenginn til að fylgja dönskum leiðangri til Íslands í kjölfar Öskjugossins árið áður. Í þessari ferð kynntist hann fyrst jarðfræðilegum vettvangsrannsóknum og fékk að berja augum glæný ummerki eftir eldgos sem ekki voru tök á að sjá í Danmörku.

Vorið 1880, rétt áður en Þorvaldur hugðist byrja á lokaritgerð til meistaraprófs, var hann hvattur til að sækja um kennarastöðu við nýstofnaðan gagnfræðaskóla á Möðruvöllum. Af fjárhagslegum ástæðum valdi Þorvaldur fastlaunaða vinnu fram yfir embættispróf og ótrygga framtíð og var fastur kennari á Möðruvöllum til ársins 1884. Hann lauk aldrei háskólaprófinu. Sumrin nýtti hann til rannsóknaferða um Ísland og ferðaðist um landið nánast árlega allt til ársins 1898.

Árið 1885 var Þorvaldi veitt kennaraembætti við Lærða skólann í Reykjavík þar sem hann vann fyrir sér til 1895. Hann kvæntist Þóru, dóttur Péturs Péturssonar biskups, 1887.  Hennar er minnst í dag sem einnar af fyrstu konum á Íslandi sem fengust við myndlist. Þau bjuggu í Reykjavík og eignuðust árið 1888 dótturina Sigríði. Hún dó 1903. Aðra dóttur, Maríu Kristínu, hafði Þorvaldur eignast á Möruvallaárunum með vinnukonu á staðnum. Hún var ættleidd til Akureyrar, þar sem hún ólst upp við gott atlæti en lést einnig um aldur fram 1907. Það er kannski til marks um tíðarandann að Þorvaldur getur hennar hvergi í endurminningum sínum.

Þorvaldur fluttist 1895 ásamt konu sinni og dóttur til Kaupmannahafnar þar sem þau bjuggu til dauðadags. Þar hafði Þorvaldur yfirleitt þokkalegar tekjur. Auk eftirlauna frá danska ríkinu  þáði hann laun fyrir ritstörf og naut iðulega ýmissa styrkja. Auk þess vann hann að gerð herforingjaráðskortanna, lagði til örnefni og las prófarkir. Oftar en einu sinni afþakkaði hann prófessorsstöður í Höfn. Eins og áður segir dó Sigríður 1903, á fimmtánda ári. Þóra lést 1917 og Þorvaldur fjórum árum síðar, 28. september 1921.

Þorvaldur Thoroddsen var einstaklega atorkusamur og afkastamikill í störfum sínum. Hann var fyrstur manna með jarðfræðilega þekkingu til að ferðast um landið þvert og endilangt og rannsaka náttúru þess, ekki síst hálendið. En ekki höfðu allir landsmenn skilning á því. Þorvaldur  segir frá því í endurminningum sínum að Halldór Kr. Friðriksson, kennari við Lærða skólann, hafi  eitt sinn spurt embættismann á götu: „Hvað er Þorvaldur að slæpast hér í sumar?“ Maðurinn taldi að það væri fróðlegt og gagnlegt að kanna óþekkta náttúru víðs vegar um landið. Þá svaraði Halldór: „Hvað ætli það sé fróðlegt – ég gæti líka farið upp í Kjós og logið einhverju!“

Hér hefur verið stiklað á stóru um ævi Þorvalds án þess að rannsóknaferðir hans hafi verið raktar að nokkru marki eða umfangsmikil og stórmerkileg skrif hans í bókum og tímaritum. Talsvert hefur verið ritað um hann, aðallega í tengslum við ferðir hans og ritstörf. Við vitum minna um persónulega hagi hans og fjölskyldulíf því að í endurminningum sínum fer hann ekki mörgum orðum um þau efni. En ýmiss konar skjöl og sendibréf eru til í söfnum hér heima og í Danmörku sem nýtast vonandi einhverjum til að skrifa heildstæða ævisögu þessa merka vísindamanns í fyllingu tímans.