Ármann Jakobsson skrifar 7. október 2024
Þegar Sveinn Einarsson leikhúsmaður og rithöfundur varð níræður í september gaf hann mörgum vinum sínum litla bók setta saman í tilefni viðburðarins. Sveinn hefur verið ötull seinustu ár að senda frá sér alls konar bækur en öfugt við það sem einkennir marga sískrifandi eftirlaunamenn heldur hann sig aldrei á hinni öruggu braut vel þekktra og fyrirframskilgreindra forma heldur er hann sannur módernisti sem reynir sig við hitt og þetta og í kverinu litla eru það minningabrot úr langri ævi: smásögur, örsögur og ljóð, eflaust einhver þrautreynd í munnlegum flutningi því að Sveinn er þekktur sögumaður og þar sem ævi hans hefur ekki síst verið helguð lifandi list stendur hið munnlega honum jafnan nálægt.
Leiksvið bókarinnar er um veröld víða og hún flakkar óhikað miðað við tímasvið eins og er eðli minninganna. Þetta skilur Sveinn manna best, hann hefur jafnan heimspekilega nálgun á efnið líkt og fleiri málefni og verkið kemur í kjölfar mikilvægra fræðirita hans um eðli leiksýningarinnar (verk sem hlaut verðskuldaða athygli í fyrra) og skáldið Jóhann Sigurjónsson. Sveinn hefur líka sent frá sér ýmis rit sem eru réttnefnd smælki á seinustu árum, óviljugur að negla hið stundum sundurleita efni niður í vélræn þemu; hann hugsar þar eins og 18. aldar menn sem hneigðust mjög til að safna hvaðeina úr eigin humarkimum í handrit sín. Þetta rit hefst með smellinni tilvitnun í meistara Hálfdan, einn hinna fjölmörgu 18. aldar manna sem hefur verið hugstæður Sveini og finnst manni þeir stundum vera vinir hans og vandamenn ekkert síður en fjarlæg fortíð.
Sjálfur lýsir höfundur bókinni þannig að hann „bregði á leik“ sem er hógvær lýsing en nær líka utan um þann mikla þátt í ævi hans sem leiksviðið hefur verið. Stundum minnir Sveinn mann á Frank heitinn Sinatra, í hverju riti hans má greina undiröldu sem gæti bent til að höfundur hugsi verkið sem sinn svanasöng. En Sinatra komst alltaf að því að það væri meira hljóð í belgnum og eins hafa skapanornir leyft heiminum að eiga Svein ívið lengur en hann kannski átti von á og fyrir það er vert að þakka, eins og þau mörgu verk sem hann hefur lokið í hárri elli. Hið sama á við um hið mikla örlæti hans sem finna má undir niðri í viðleitninni til að deila reynslu sinni og hugsunum í hinum fjölbreyttustu formum.