Skráð

„Besta bók Hlínar“

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir skrifar á Facebook í dag:

Loksins, loksins bók um stelpur sem áttu (og eiga örugglega enn) í basli við að breytast úr stelpukrakka í unga konu. Stelpur sem voru aldar upp til að hlýða og þóknast en langaði mest af öllu að óhlýðnast og feta ótroðnar slóðir. Stelpur sem urðu að gera uppreisn gegn feðrunum til að geta orðið það sem þær vildu verða. Feðrunum sem voru fyrirmynd en líka ógnun við frelsi þeirra og sjálfstæði. Meydómur eftir Hlín Agnarsdóttur er persónuleg þroskasaga Hlínar en hún er líka saga margra annarra stelpna sem ólust upp í barnmörgum fjölskyldum í lægri millistétt og urðu að vissu leyti viðskila við uppruna sinn þegar menntasprengjan í byrjun áttunda áratugarins spýtti þeim inn í menntaskólana. Hlín lýsir þessu einmanalega ferðalagi mjög vel og þó að mínar aðstæður hafi að ýmsu leyti verið aðrar en hennar þá þekki ég mig í þessari bók. Takk Hlín fyrir að gefa okkur hlutdeild í þinni persónulegu sögu svo við getum speglað okkur í henni.

Dagný Kristjánsdóttir bætir við:

Þetta er dásamleg bók og svolítið þversagnakennt að nota það orð um jafn grimma bók. Grimma í þeirri merkingu að hún felur ekki eða breiðir yfir það hve hræðilega flókið samband af ást og hatri þreifst/þrífst í skjóli „friðhelgi einkalífsins. Þetta er besta bók Hlínar og hafi hún þökk fyrir að „þora meðan aðrir þegja“.