Þær bíða og bæra ekki á sér. Hljóðar og hlédrægar standa þær í röðum með veggnum. Þær sýnast sofa en frá hverri þeirra horfir nafn við þér eins og opið auga. Þær fara ekki fram á neitt, krefjast engrar athygli, leita ekki á. Þær bíða uns þú gefur þig að þeim — þá birta þær þér það sem býr í þeim.
Þú gengur að hillunni. Heiti bókanna horfa við leitandi sjónum þínum eins og trúföst augu, þögul og þolinmóð. Og hönd þín þreifar um raðir bókanna … eins og þegar fingur líða yfir nótur til þess að finna lykil að ákveðnu lagi. Þú opnar eina, lest línu, erindi, en það hljómar ekki skýrt að þessu sinni, snertir ekki neitt í þér. Þú setur hana á sinn stað aftur, vonsvikinn, nærri hranalega … þar til þú finnur BÓKINA … þá, sem þér er að skapi þessu sinni og vekur enduróma djúpt í huga þér.
BÓKIN. Tryggasti félaginn og sá hljóðlátasti. Þetta eru þakkarorð fyrir eilíf fyrirheit áhrifa þinna; þökk fyrir það sem þú hefur verið mönnum á myrkum stundum og þrautasömum. Með undursamlegu segulafli hefurðu seitt vanans sljóu deyfð af vanræktum sálum. Öðrum varstu styrkjandi hvíld við andlegri áreynslu. Í örvona mönnum og uppgefnum vaktirðu vonarríka drauma. Þeim sem einmana þjáðust varstu andríkur vinur. Eirðarlausum hugum veittirðu hvíld og órólegum hjörtum frið. Hlédræg ertu og lítilþæg … leitar ekki á. En þú ert viðbúin, þegar á þig er kallað, og þegar hjarta vort snertir þig rýfur þú fásinni hversdagsins og birtir oss heim sem er meiri en vor …
Stefan Zweig (TEXTI Á GÖMLU BÓKAMERKI FRÁ SETBERGI S/F)