
Category: Fréttir
„leiftrandi fyndin, ónotaleg og spennandi skáldsaga“
Þarf að segja nokkuð meira?
Nýja bókin hennar Berglindar komin í verslanir

Í mynd Gyðjunnar
Saga hennar í skáldskap, náttúru og trú
„Hún var hið ríkjandi afl alls lífs og fékk kraft sinn úr vötnum og uppsprettulindum, frá sól og tungli og rakri jörð. Í goðkynjuðum heimi hennar gekk tíminn eftir hringlaga brautum, ekki línulega. Í skapandi handverki frá tíma hennar sjáum við dínamískar hreyfingar, spírallaga form sem snúast og afbakast, snáka sem hringa sig saman og hlykkjast, hringi, hálfmána, nautshorn, fræ sem springa út og gróðursprota.“
Hér segir frá ýmsum myndum Gyðjunnar sem tengjast náttúru og dýrum, svo sem Augngyðjunni, Fuglagyðjunni og Tunglgyðjunni. Höfuðsetur Gyðjunnar varði lengst á Krít og víðar í Eyjahafi, en Indó-Evrópumenn lögðu undir sig ríki hennar um 1500 f. Krist. Þá koma fram gyðjur goðsagnaheimanna sem við þekkjum, en náttúran var dýrkuð í gyðjulíki öldum saman eftir að kristni komst á. Með kristni tekur María guðsmóðir sess Gyðjunnar miklu. En þar með er hin forna Gyðja ekki úr sögunni; á öllum öldum er hún við lýði, allt fram á okkar dag.
Á 19. öld birtist hin ævaforna tunglgyðja í lífi og ljóðum rómantísku skáldanna; við hittum hana fyrir í heimi enska skáldsins Johns Keats mitt í því náttúrufari sem honum var svo kært. „Dýrðarljómi og yndisleiki hafa horfið,“ segir hann, og „Pan er ekki lengur í augsýn.“ Fleiri skáld yrkja um tunglgyðjuna; skáldkonan merka, Emily Brontë, kallaði tunglskinsbjartar nætur „dag Díönu“ – en Díana var tunglgyðja Rómverja, og Benedikt Gröndal orti til himingyðjunnar.
Snemma á 20. öld birtist tunglið, La Lúna, víða í ljóðagerð spænska skáldsins Federicos García Lorca og lýsingar hans á náttúrufari Andalúsíu eru fullar af anda goðsagna, einkum grísk-rómverskra, en einnig annars staðar frá. Goðsagnir halda áfram að hafa áhrif og það verður endurvakning í Evrópu á dulhyggju eða okkúltisma. Dagur Sigurðarson yrkir til tunglgyðjunnar og Soffía Bjarnadóttir yrkir um lifandi goðsögur í Reykjavík á 21. öld.
Berglind Gunnarsdóttir (f. 1953) lagði stund á spænsku og málvísindi í Reykjavík og Madrid. Hún hefur birt skáldsögur, frumort ljóð og ljóðaþýðingar, einkum úr spænsku.
Útgáfudagur: 26. september 2022
ISBN 978-9979-63-147-7
Kilja, 82 bls.
TÍMAHYLKI

Ísak Gabríel Regal segir kost og löst á Ég var nóttin í Morgunblaðinu 23. ágúst 2022.
Hann klykkir út með þessum orðum:
„Þegar upp er staðið er sagan vel skrifuð og hálfgert ástarbréf til liðinna tíma og á einn eða annan hátt tímahylki, en það virðist vera aðalviðfangsefni sögunnar; tíminn. Hvernig við hugsum um og varðveitum hann, hvernig hann breytir okkur, eða ekki, og heldur sumum föstum í viðjum sínum.
Þá hló ég nokkrum sinnum upphátt meðan á lestri stóð og sýnir það að höfundurinn hefur ýmislegt til brunns að bera hvað viðkemur hnyttni og kímnigáfu en sagan er skrifuð í einkar kaldhæðnislegum tón.
Ég mæli með bókinni fyrir alla þá sem vilja hverfa aftur í tímann og skyggnast í miðbæjarlífið í Reykjavík árið 1985, en þar kennir ýmissa grasa og síðast en ekki síst fyrir alla þá sem vilja vita hvernig það er að búa inni á heimili sérviturra eldri hjóna.“
Hún er komin: Ég var nóttin

Eftir alllangt hlé sendi Einar Örn Gunnarsson nýlega frá sér Reykjavíkursöguna Ég var nóttin. Sagan er frásögn ungs laganema sem leigir kjallaraherbergi í stóru einbýlishúsi í Þingholtunum í Reykjavík árið 1985. Húsið var á sínum tíma með fallegustu glæsihýsum borgarinnar en er nú í niðurníðslu. Leigusalarnir eru roskin hjón, undarleg í háttum og lifa í fortíðinni og draumórum sínum. Sögumaður er varaður við hjónunum en smám saman aukast samskipti pilts við þau. Með tímanum fer hann að átta sig á að þau eru ekki öll þar sem þau eru séð og undarlegir atburðir taka að gerast.
Við bjóðum Einar Örn velkominn til leiks á ný!
Meydómur í kilju!
„… feikilega áhrifamikil og merkileg bók.“

https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/kiljan/30777/9j2ush
Egill, Sunna Dís og Þorgeir eru aldeilis ánægð með Meydóm!
Til hamingju, Hlín.
Klerkur tekur upp hanskann fyrir Lúther
Hér er allhressilegur ritdómur um SJÖ GOÐSAGNIR UM LÚTHER eftir Frederik Stjernfelt í þýðingu Ásmundar Stefánssonar.

„Besta bók Hlínar“

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir skrifar á Facebook í dag:
Loksins, loksins bók um stelpur sem áttu (og eiga örugglega enn) í basli við að breytast úr stelpukrakka í unga konu. Stelpur sem voru aldar upp til að hlýða og þóknast en langaði mest af öllu að óhlýðnast og feta ótroðnar slóðir. Stelpur sem urðu að gera uppreisn gegn feðrunum til að geta orðið það sem þær vildu verða. Feðrunum sem voru fyrirmynd en líka ógnun við frelsi þeirra og sjálfstæði. Meydómur eftir Hlín Agnarsdóttur er persónuleg þroskasaga Hlínar en hún er líka saga margra annarra stelpna sem ólust upp í barnmörgum fjölskyldum í lægri millistétt og urðu að vissu leyti viðskila við uppruna sinn þegar menntasprengjan í byrjun áttunda áratugarins spýtti þeim inn í menntaskólana. Hlín lýsir þessu einmanalega ferðalagi mjög vel og þó að mínar aðstæður hafi að ýmsu leyti verið aðrar en hennar þá þekki ég mig í þessari bók. Takk Hlín fyrir að gefa okkur hlutdeild í þinni persónulegu sögu svo við getum speglað okkur í henni.
Dagný Kristjánsdóttir bætir við:
Þetta er dásamleg bók og svolítið þversagnakennt að nota það orð um jafn grimma bók. Grimma í þeirri merkingu að hún felur ekki eða breiðir yfir það hve hræðilega flókið samband af ást og hatri þreifst/þrífst í skjóli „friðhelgi einkalífsins. Þetta er besta bók Hlínar og hafi hún þökk fyrir að „þora meðan aðrir þegja“.
Ásmundur Stefánsson spjallar um Lúther

Í gærmorgun ræddi Ásmundur við Kristján Kristjánsson á Bylgjunni um þýðingu sína á bókinni Sjö goðsagnir um Lúther eftir Frederik Stjernfelt.
„Með bitastæðari bókum sem ég hef lesið undanfarna mánuði.“
Þorgeir Tryggvason skrifar á facebook-síðu sinni í dag:
„Ég staldra við ryðgaða tunnu í steinsteyptu porti þar sem balalækan grét og mandólínið gaf frá sér síðasta hljóminn, þú opnar bakdyrnar út í portið, stendur á hvítum hlýrabol, hver vöðvi þaninn, hver taug strekkt þegar þú mannýgur mölvar hljóðfærin á hvassri brún tunnunnar, járnið rífur mjúkan spóninn, tætlurnar sáldrast um loftið, strengirnir æpa.“
Ég hef lítið komist til að lesa „framhjá Kiljunni“ þetta flóðið. En í gær gafst tóm og ég greip upp Meydóm Hlínar Agnarsdóttur þegar ég kom heim úr vinnunni og lagði hana varla frá mér fyrr en ég hafði lokið lestinum. Samt er þetta nú að mestu kunnugleg saga. Eins og allar sannsögur: einstök og almenn í senn. Hið kunnuglega gerir það mögulegt að máta sig við lífsreynslu höfundar, hið sérstaka er gjöfin sem víkkar út vitund og heim lesandans.
Meydómur er framúrskarandi dæmi um mátt og mikilvægi persónulegra upprifjunar- og uppgjörsbóka. Listlilega skrifuð, grundvölluð á næmri og viðamikilli sjálfsskoðun, full af myndum af menningu sem mótaði sálarlíf, siðferði og hegðunarmynstur kynslóðar höfundar og foreldra hennar, og endurómar enn, til góðs og ills. Með bitastæðari bókum sem ég hef lesið undanfarna mánuði.