Skráð

Alþjóðlegur dagur bókarinnar

Í dag , 23. apríl, er alþjóðlegur dagur bókarinnar.

Halldór Laxness fæddist á þessum dagi 1902, Shakespeare líka, nokkrum öldum áður. Og Cervantes lést á þessum degi árið 1616.

En í gær, 22. apríl, hefði Vladimir Nabokov haldið upp á afmælið sitt ef hann hefði lifað (fyrir misskilning héldu menn um tíma að hann hefði fæðst 23. apríl). Hann fæddist 1899 og dó 1977.

Enn eru fáein eintök eftir af frábærri þýðingu Illuga Jökulssonar á skáldsögu Nabokovs, Vörninni sem fæst nú á góðu verði.

Skráð

Góð vísa er aldrei of oft kveðin

Spjallið á Hringbraut um Styrjöldina í Selinu má enn sjá og heyra á netinu:

Skráð

Styrjöldin í Selinu á Hringbraut í kvöld kl. 21:00

04. mars 2019 – 10:57 – FRÉTTIR

Gleyptu þetta allir eins og sannleika

„Þetta var mjög trúverðugt þar sem það var fenginn raunverulegur þulur hjá Ríkisútvarpinu til að flytja þessar tilkynningar. Þegar hann gerði það þá hafði hann nú ekki hugmynd um út á hvað þetta leikrit gengi. Þetta var Ragnar Tómas Árnason, dóttir hans var með okkur í árgangi, við höfðum aðgang að honum. Það var hermt í þessum þætti eftir þekktum mönnum, stjórnmálamönnum, útvarpsstjóra og fleirum. Það var Karl Guðmundsson eftirherma sem gerði það svo snilldarlega að það gleyptu þetta bara allir eins og sannleika,“ segir Sigurður St. Arnalds verkfræðingur.

Sigurður og Heimir Sindrason tannlæknir eru gestir Björns Jóns Bragasonar í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld, þar sem þeir ræða bók sem þeir ásamt nokkrum skólafélögum úr sama útskriftarárgangi í MR hafa sett saman, Styrjöldin í Selinu – Upprifjun.

Bókin fjallar um hrekk sem hluti nemenda gerði árið 1965 um að yfirvofandi væri þriðja heimsstyrjöldin og að Keflavíkurflugvöllur yrði sprengdur í loft upp innan skamms. Þetta var aðeins rúmum tveimur árum eftir Kúbudeiluna þar sem heimurinn var á barmi kjarnorkustyrjaldar og því óttinn við styrjöld mikill.

Heimir segir Sigurð alfarið eiga heiðurinn að hrekknum en að sjálfur hafi hann verið fórnarlamb. „Þetta var rosaleg lífsreynsla fyrir okkur öll og mikið af mínum vinum sem ég var alltaf að spyrja: „Hvernig upplifðuð þið þetta?“ Það voru allir sem upplifðu þetta þannig að þetta hefði verið ein skelfilegasta upplifun á lífsleið sinni,“ segir Heimir.

Innblástur frá Orson Welles

Sigurður segir að þetta hafi einungis verið hugsað sem hrekkur og að litið hafi verið til frægrar uppsetningar Orson Welles á útvarpsleikritinu Innrásin frá Mars árið 1938 sem innblásturs. Sá flutningur reyndist svo sannfærandi að hann olli múgsefjun hlustenda, sem trúðu því margir hverjir að Marsbúar hefðu hafið innreið sína í New York. Með Innrásina frá Mars sem innblástur var ákveðið að tjalda öllu til þegar kom að hrekknum í Selinu, í formi afar trúverðugra útvarpstilkynninga.

Eldri bróðir lagði grunninn

Um aðdragandann að hrekknum segir Sigurður: „Einhvern hafði rekið minni til þess að níu árum á undan okkur hafði verið reyndur svona hrekkur í Selinu og fyrir því hefði staðið Ragnar Arnalds, bróðir minn eldri, hann var í MR níu árum á undan mér. Sá hrekkur hins vegar gekk ekki til enda og kennarinn stoppaði þetta af mjög snemma. Ég fór á stúfana og kannaði málið. Í þessu tilviki þá datt honum í hug að setja það á svið að Rússar teldu sig hafa fengið ógnun frá Bandaríkjunum um að Bandaríkin ætluðu að ráðast á Rússland og andsvar Rússa var að þeir ætluðu að láta eyða þremur herstöðvum þaðan sem þeir töldu að kjarnorkusprengjur yrðu sendar til Rússlands. Ísland fékk þá úrslitakosti að annað hvort myndum við Íslendingar sjá til þess að stöðin í Keflavík yrði eyðilögð eða Rússarnir myndu gera það sjálfir með því að varpa vetnissprengju á Keflavíkurflugvöll síðar sama dag.“

Nánar er rætt við þá Sigurð og Heimi í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.

Skráð

Líf og fjör á bókamarkaðnum í Laugardal

Nú stendur yfir bókamarkaður Félags íslenskra bókaútgefenda á Laugardalsvelli. Hann er opinn alla daga kl. 10-21 til og með 10. mars.

Ormstunga býður nokkra titla á kostakjörum:

  • Sauðfjárávarpið eftir Hákon J. Behrens @ 690 kr.
  • Síðasti elskhuginn eftir Val Gunnarsson @ 690 kr.
  • Maí 68 eftir Einar Má Jónsson @ 490 kr.
  • Fuglaskoðarinn eftir Stefán Sturlu @ 490 kr.
  • Vörnin eftir Vladimir Nabokov @ 490 kr.
  • Við skjótum þig á morgun Mister Magnússon eftir Hauk Má Haraldsson @ 790 kr.
  • Blómin frá Maó eftir Hlín Agnarsdóttur @ 490 kr.
  • Dröfn og Hörgult eftir Baldur Óskarsson @ 490 kr.
  • Pósthólf dauðans eftir Kristin R. Ólafsson @ 490 kr.
  • Bókaránið mikla eftir Korsgaard & Surrugue @ 490 kr.
  • Ranghugmyndin um guð eftir Richard Dawkins @ 690 kr.
  • Guðir og menn eftir Harald Bessason @ 490 kr.
Skráð

Fróðlegt viðtal

Í morgun birti Morgunblaðið fróðlegt viðtal við Heimi Sindrason um viðburðinn í Menntaskólaselinu 1965 og bókina Styrjöldin í Selinu sem kom út 19. janúar s.l.

Skráð

Óvenjuleg upprifjun

Í febrúar 1965 var þriðja heimsstyrjöldin sett á svið í Menntaskólaselinu í Reykjadal inn af Hveragerði. Atburðurinn brenndi sig í vitund grandalausra nemendanna, þáverandi fjórðubekkinga í MR, þannig að enginn er samur eftir, meira en hálfri öld síðar.

Þessi einstæða reynsla unglinganna má heita fáheyrð á Íslandi og jafnast helst á við upplifun bandarískra útvarpshlustenda skömmu fyrir seinni heimsstyrjöld þegar Orson Welles sendi út Innrásina frá Mars. Uppátækið í Selinu varð að blaðamáli og vakti marga til reiði.

Áratugum síðar tók sú hugsun að leita á Heimi Sindrason, einn af fjórðubekkingum ársins 1965,  að þessi einstæða lífsreynsla ætti ekki að liggja í láginni og mætti ekki gleymast. Hann linnti ekki látum fyrr en til var orðin dálítil ritnefnd og afraksturinn er þessi bók, Styrjöldin í Selinu, sem er prýdd fjölmörgum ljósmyndum. Í bókinni rifja þolendur og gerendur upp viðburðinn og skoða í víðara samhengi.

Meðal „fórnarlambanna“ í Selinu var Ágúst Guðmundsson, síðar kvikmyndagerðarmaður. Þessi eftirminnilega Selsferð varð síðar kveikjan að sjónvarpsmynd hans, Skólaferð, sem frumsýnd var í Sjónvarpinu 1978.

Ágúst fékk hugmyndina að myndinni árið 1971, sex árum eftir atburðinn, og tók þá viðtöl við fjölda nemenda sem voru í ferðinni. Þau eru birt í bókinni og varpa merkilegu ljósi á uppákomuna sem varð æsilegt blaðaefni næstu daga á eftir.

Þá eru birtar samtímadagbókarfærslur hans og Ásgeirs Sigurgestssonar sálfræðings. Í öðrum kafla setur Ásgeir atburðinn í samhengi við sambærilega viðburði erlendis og hugmyndir sálfræðinga um hópsefjun.

Nokkrir nemendur líta til baka og setja hugleiðingar sínar á blað. Rætt er við Eirík Haraldsson kennara, sem var í ferðinni, og Sigurður St. Arnalds verkfræðingur segir frá því hvernig hugmyndin að útvarpsgabbinu varð til.

Laugardaginn 19. janúar 2019 flykktust gamlir MR-ingar og aðrir góðir gestir í Bíó Paradís í Reykjavík til að fagna útkomu bókarinnar og horfa á Skólaferð sem var sýnd í fyrsta sinn í kvikmyndahúsi – og salurinn fylltist! Meðal gesta voru Vigdís Finnbogadóttir, Ragnar Arnalds og Valdimar Örnólfsson. Þetta var ógleymanleg stund.

Bókin fæst í flestum bókabúðum og í netverslun Ormstungu.

Skráð

Glæpakvöld á Sólon kl. 20

Eftir því sem við best vitum er Glæpakvöld Hins íslenska glæpafélags á Sólon í kvöld, fimmtudaginn 29. nóv. 2018.

Þar mun m.a. Valgeir Skagfjörð lesa upp úr FLÉTTUBÖNDUM, nýjustu bók Stefáns Sturlu og margir aðrir höfundar koma við sögu.

Þið megið gjarna deila þessu því að okkur tekst ekki í fljótu bragði að finna neins staðar tilkynningu frá Hinu íslenska glæpafélagi um viðburðinn.

Skráð

Í dag koma Fléttubönd út

Fléttubönd, annar hluti þríleiksins um Lísu lögreglukonu og aðstoðarfólk hennar, kemur út í dag. Fyrsti hluti kom út í fyrra undir nafninu Fuglaskoðarinn og lokaþátturinn sér svo dagsins ljós á næsta ári.

Barnslík finnst á förnum vegi og óvæntir hlutir koma í ljós við rannsókn málsins og við sögu koma vægast sagt vafasamir starfshættir tiltekinnar bílaleigu. Samstarfsfólk Lísu, sem lesendur þekkja úr Fuglaskoðaranum, leikur hér líka stórt hlutverk, einkum Kári, sonur Bangsa lögreglustjóra.

Auk þess að fylgjast með lausn morðgátunnar kynnist lesandinn fortíð Kára og erfiðleikum hans við að fóta sig í lífinu. En allt gengur upp að lokum í óvæntum endi sögunnar nema hvað afdrif Kára skýrast víst ekki endanlega fyrr en í þriðja hlutanum að ári!

Skráð

Georgía í Frankfurt

Í dag hófst bókamessan í Frankfurt. Heiðursgesturinn að þessu sinni er Georgía.

Árið 2001 var 6. hefti tímaritsins Jón á Bægisá helgað Georgíu og þar sem tímaritið er nú að mestu aðgengilegt á netinu viljum við vekja athygli á fróðlegu og skemmtilegu efni heftisins ásamt áhugaverðum georgískum skáldskap sem á rætur að rekja meira en þúsund ár aftur í aldir.

Skráð

Örsaga frá Tékklandi

 

Ég var í rútu í Tékklandi snemma morguns fyrir tveimur árum. Einhvers staðar á landamærum svefns og vöku streymdu allt í einu sögur og persónur inn í hausinn á mér. Þær stöldruðu stutt við og hurfu mér svo aftur.

Ég skildi ekki hvað var að gerast í fyrstu en svo vaknaði ég og fattaði að rútan hafði keyrt í gegnum ský af sögum. Þær komu til mín en fóru aftur um leið og þær urðu þess áskynja að ég er ekki Tékki – að ég gæti ekki sagt þær.

Ég er viss um að þær eru þarna enn á sveimi og bíða eftir tékknesku skáldi.

Hákon Jens Behrens