Skráð

Fróðlegt viðtal

Í morgun birti Morgunblaðið fróðlegt viðtal við Heimi Sindrason um viðburðinn í Menntaskólaselinu 1965 og bókina Styrjöldin í Selinu sem kom út 19. janúar s.l.

Skráð

Sígild lesning

Stundin, 8. febrúar 2019

Ranghugmyndin um guð

Skráð

Óvenjuleg upprifjun

Í febrúar 1965 var þriðja heimsstyrjöldin sett á svið í Menntaskólaselinu í Reykjadal inn af Hveragerði. Atburðurinn brenndi sig í vitund grandalausra nemendanna, þáverandi fjórðubekkinga í MR, þannig að enginn er samur eftir, meira en hálfri öld síðar.

Þessi einstæða reynsla unglinganna má heita fáheyrð á Íslandi og jafnast helst á við upplifun bandarískra útvarpshlustenda skömmu fyrir seinni heimsstyrjöld þegar Orson Welles sendi út Innrásina frá Mars. Uppátækið í Selinu varð að blaðamáli og vakti marga til reiði.

Áratugum síðar tók sú hugsun að leita á Heimi Sindrason, einn af fjórðubekkingum ársins 1965,  að þessi einstæða lífsreynsla ætti ekki að liggja í láginni og mætti ekki gleymast. Hann linnti ekki látum fyrr en til var orðin dálítil ritnefnd og afraksturinn er þessi bók, Styrjöldin í Selinu, sem er prýdd fjölmörgum ljósmyndum. Í bókinni rifja þolendur og gerendur upp viðburðinn og skoða í víðara samhengi.

Meðal „fórnarlambanna“ í Selinu var Ágúst Guðmundsson, síðar kvikmyndagerðarmaður. Þessi eftirminnilega Selsferð varð síðar kveikjan að sjónvarpsmynd hans, Skólaferð, sem frumsýnd var í Sjónvarpinu 1978.

Ágúst fékk hugmyndina að myndinni árið 1971, sex árum eftir atburðinn, og tók þá viðtöl við fjölda nemenda sem voru í ferðinni. Þau eru birt í bókinni og varpa merkilegu ljósi á uppákomuna sem varð æsilegt blaðaefni næstu daga á eftir.

Þá eru birtar samtímadagbókarfærslur hans og Ásgeirs Sigurgestssonar sálfræðings. Í öðrum kafla setur Ásgeir atburðinn í samhengi við sambærilega viðburði erlendis og hugmyndir sálfræðinga um hópsefjun.

Nokkrir nemendur líta til baka og setja hugleiðingar sínar á blað. Rætt er við Eirík Haraldsson kennara, sem var í ferðinni, og Sigurður St. Arnalds verkfræðingur segir frá því hvernig hugmyndin að útvarpsgabbinu varð til.

Laugardaginn 19. janúar 2019 flykktust gamlir MR-ingar og aðrir góðir gestir í Bíó Paradís í Reykjavík til að fagna útkomu bókarinnar og horfa á Skólaferð sem var sýnd í fyrsta sinn í kvikmyndahúsi – og salurinn fylltist! Meðal gesta voru Vigdís Finnbogadóttir, Ragnar Arnalds og Valdimar Örnólfsson. Þetta var ógleymanleg stund.

Bókin fæst í flestum bókabúðum og í netverslun Ormstungu.

Skráð

Glæpakvöld á Sólon kl. 20

Eftir því sem við best vitum er Glæpakvöld Hins íslenska glæpafélags á Sólon í kvöld, fimmtudaginn 29. nóv. 2018.

Þar mun m.a. Valgeir Skagfjörð lesa upp úr FLÉTTUBÖNDUM, nýjustu bók Stefáns Sturlu og margir aðrir höfundar koma við sögu.

Þið megið gjarna deila þessu því að okkur tekst ekki í fljótu bragði að finna neins staðar tilkynningu frá Hinu íslenska glæpafélagi um viðburðinn.

Skráð

Í dag koma Fléttubönd út

Fléttubönd, annar hluti þríleiksins um Lísu lögreglukonu og aðstoðarfólk hennar, kemur út í dag. Fyrsti hluti kom út í fyrra undir nafninu Fuglaskoðarinn og lokaþátturinn sér svo dagsins ljós á næsta ári.

Barnslík finnst á förnum vegi og óvæntir hlutir koma í ljós við rannsókn málsins og við sögu koma vægast sagt vafasamir starfshættir tiltekinnar bílaleigu. Samstarfsfólk Lísu, sem lesendur þekkja úr Fuglaskoðaranum, leikur hér líka stórt hlutverk, einkum Kári, sonur Bangsa lögreglustjóra.

Auk þess að fylgjast með lausn morðgátunnar kynnist lesandinn fortíð Kára og erfiðleikum hans við að fóta sig í lífinu. En allt gengur upp að lokum í óvæntum endi sögunnar nema hvað afdrif Kára skýrast víst ekki endanlega fyrr en í þriðja hlutanum að ári!

Skráð

Georgía í Frankfurt

Í dag hófst bókamessan í Frankfurt. Heiðursgesturinn að þessu sinni er Georgía.

Árið 2001 var 6. hefti tímaritsins Jón á Bægisá helgað Georgíu og þar sem tímaritið er nú að mestu aðgengilegt á netinu viljum við vekja athygli á fróðlegu og skemmtilegu efni heftisins ásamt áhugaverðum georgískum skáldskap sem á rætur að rekja meira en þúsund ár aftur í aldir.

Skráð

Örsaga frá Tékklandi

 

Ég var í rútu í Tékklandi snemma morguns fyrir tveimur árum. Einhvers staðar á landamærum svefns og vöku streymdu allt í einu sögur og persónur inn í hausinn á mér. Þær stöldruðu stutt við og hurfu mér svo aftur.

Ég skildi ekki hvað var að gerast í fyrstu en svo vaknaði ég og fattaði að rútan hafði keyrt í gegnum ský af sögum. Þær komu til mín en fóru aftur um leið og þær urðu þess áskynja að ég er ekki Tékki – að ég gæti ekki sagt þær.

Ég er viss um að þær eru þarna enn á sveimi og bíða eftir tékknesku skáldi.

Hákon Jens Behrens

 

Skráð

Hákon ræddi við Egil í Kiljunni um Sauðfjárávarpið

Hákon J. Behrens í Kiljunni 13. des. 2017

 

 

Skráð

Fuglaskoðarinn kemur út í dag

Í dag kemur út ný spennusaga eftir Stefán Sturlu, Fuglaskoðarinn. Þetta er saga um dularfullan dauðdaga ungs manns suður með sjó sem er hugfanginn af fuglum. Við rannsókn málsins kemur í ljós að ekki er allt með felldu í fortíð piltsins.

Þetta er fyrsta bókin um líf og störf lögreglukonunnar Lísu og aðstoðarfólks hennar og aldrei að vita nema höfundurinn sendi frá sér framhald í fyllingu tímans.

Skráð

Húsið

Hinn 10. mars 2017 var Húsið eftir Guðmund Steinsson sett á svið í fyrsta sinn. Þessi frumuppfærsla var á Stóra sviðinu í Þjóðleikhúsinu í leikstjórn Benedikts Erlingssonar. Í ítarlegum inngangi að heildarútgáfu leikrita Guðmundar skrifar Jón Viðar Jónsson m.a. um Húsið og þýðingu þess í höfundarverki Guðmundar.


Silja Aðalsteinsdóttir skrifar hér um sýninguna.

Smellið hér til að fræðast um heildarútgáfu á leikritum Guðmundar.