Fæddist endur fyrir löngu á Þórshöfn á Langanesi. Eftir gagn og gaman í Barnaskóla Vestmannaeyja og heilmikið fjör í gagnfræðaskólanum þar, sem lauk með gamla góða landsprófinu, settist minn maður á virðulegan skólabekk í MR og slapp þaðan með stúdentspróf úr stærðfræðideild.
Lagði síðar stund á rafmagnsverkfræði við tækniháskólann í Aachen í Þýskaland þar sem Karlamagnús sat á tróni tveimur mannsöldrum áður en Ísland var numið. Útskrifaðist sem Diplom-Ingenieur á sviði Nachrichtentechnik. Starfaði svo um eins og hálfs árs skeið við það sem hann hafði lært – einkum við hönnun á smágervum rökrásum, svonefndum samrásum (integrated circuits).
Þessa mynd teiknaði dóttir útgefandans af honum þegar hann starfaði í tölvubransanum.
Árið 1979 hóf drengurinn störf í tölvudeild Kristjáns Ó. Skagfjörð hf. og vann þar við forritun, sölu og markaðssetningu á hinum frábæru mini-tölvum frá Digital Equipment Corporation (DEC) – blessuð sé minning þeirra. Þetta voru dálítið dýrlegir tímar!
Árið 1992 setti hann á stofn Ormstungu ásamt Sigurjóni Magnússyni rithöfundi sem sneri sér reyndar fljótlega að skáldskapnum (með glæsilegum árangri) og leiðir skildi. Síðan hefur Gísli lengstum starfað einn í forlaginu og komið að nánast öllum þáttum útgáfunnar, svo sem ritstjórn, prófarkalestri, umbroti, sölu og markaðssetningu, dreifingu, innheimtu, bókhaldi og vefsíðugerð.
Nú hafa ríflega hundrað og fimmtíu bækur forlagsins af ýmsu tagi glatt geð landsmanna. Fjórtán tölublöð bókmenntatímaritsins Jón á Bægisá, sem sérhæfir sig á sviði þýðinga og þýðingafræða, komu út fyrir tilstilli Ormstungu áður en Þýðingasetur Háskóla Íslands tók við útgáfu ritsins í desember 2016. – Þetta eru nú líka dálítið dýrlegir tímar!
[heim]