Arturo Pérez-Reverte

Spænski metsöluhöfundurinn Arturo Pérez-Reverte (f. 1951) lagði stund á stjórnmálafræði og starfaði um árabil sem blaða- og fréttamaður fyrir útvarp og sjónvarp.

Hann helgar sig nú einvörðungu ritstörfum og er einkum þekktur fyrir sögulegar skáldsögur á borð við bækurnar um Alatriste höfuðsmann og spennusögur eins og Dumasarfélagið (El club Dumas o la sombra de Richelieu) og Refskák eða bríkin frá Flandri (La tabla de Flandes) sem gerast á Spáni eða við Miðjarðarhafið. Nýjasta bók hans er Hombres buenos (2015).

Nokkrar kvikmyndir hafa verið gerðar eftir sögum hans. Þær þekktustu eru líklega Níunda hliðið eftir Roman Polanski (1999) og Alatriste eftir Agustín Díaz Yanes (2006).