Poul Vad

Poul Vad var sonur yfirkennara í Silkiborg á Jótlandi, en hvarf að loknu stúdentsprófi að námi í listfræði við Kaupmannahafnarháskóla og hlaut meistaragráðu 1958; tveimur árum fyrr hafði hann sent frá sér fyrstu ljóðabók sína, Den fremmede dag, og uppfrá þessu deildust ritstörf hans milli tveggja greina, skáldsagnagerðar og listfræði.

Listfræðileg verk Pouls Vad eru fjölmörg og auk ritgerðasafnanna ber þar hæst rit hans um einstaka listamenn, svosem Ejler Bille, Erik Thommesen, Henry Heerup o.fl., en þó hæst meistaraverk hans um Hammershøi.

Meistaraverk hans í skáldsagnagerð er af mörgum talið vera Kattens anatomi (1978), tveggja binda verk um lestarfarþega á leið frá Silkiborg til Hammerum, sem skiptast á að segja hver öðrum tröllasögur af ýmsu tagi, en fyrir þá bók var hann sæmdur bókmenntaverðlaunum Akademíunnar dönsku. Sjálfur mat hann þó ekki síður skáldsöguna Rubruk (1972), um ferð munks austur í Mið-Asíu um miðja þrettándu öld í erindum síns jarðneska herra, Frankakonungs, að hafa uppi á prestkonungnum Jóhannesi. Skáldsaga hans Galskabens Karneval (1981) er grínagtug og grótesk lykilsatíra úr dönskum listheimi áranna 1946 til 1976.

Fyrstu spurnir Íslendinga af Poul munu vera grein eftir hann í Birtingi árið 1968 um Óðinleikhúsið í Holstebro. Poul Vad var raunar af einni síðustu kynslóð danskra menntamanna sem lásu m.a. Eddukvæði og Íslendingasögur á frummálinu í menntaskóla, og lofsamaði það alla tíð. Skömmu eftir seinni heimstyrjöld var hann samtíða Herði Ágústssyni í París, en Hörður var einmitt einn af útgefendum Birtings.

Poul Vad kom nokkrum sinnum til Íslands, las þar m.a. upp og var gestur á bókmenntaþingum. Árið 1972 ók hann einn á Landroverjeppa um söguslóðir Hrafnkötlu og skrifaði seinna eftir minnisbókum sínum einhverja áhrifamestu ferðasögu frá Íslandi fyrr og síðar, Nord for Vatnajøkel (1994), frásögn af ferð um Ísland nútímans, inní Hrafnkötlu via Il Pincipe Machiavellis með viðkomu í Hollywood og víðar, og aftur til nútímans með ótal lystilegum útúrdúrum, hnyttnum mannlýsingum og rammíslenskum gamansögum. Þessi bók hefur þegar verið þýdd á nokkur tungumál, þar á meðal þýsku; hlaut sú þýðing eftirsótt ferðabókaverðlaun og á eflaust lengi eftir að lokka þýskumælandi ferðamenn til Íslands, líkt og frá Danmörku, Noregi og víðar að.

Norðan Vatnajökuls kom út hjá Ormstungu árið 2001, en tvær af skáldsögum hans höfðu áður verið þýddar á íslensku, Rúbrúk (Rubruk, RUV 1975) og Hin lítilþægu (De nøjsomme, Menningarsjóður 1977), allar þrjár í þýðingu Úlfs Hjörvars.

Á tíunda áratugnum kom út mikil bók um hann, Kontrapunkter, – en studie i Poul Vads skønlitterære forfatterskab doktorsritgerð Henk van der Liet, lektors við háskólann í Groningen, (Odense Universitetsforlag 1997).