Bjarni Bjarnason, (f. 1965) bjó víða erlendis í æsku, birti ljóð í blöðum strax sem unglingur, ritstýrði þá skólablaði og skrifaði leikrit um tvítugt sem áhugaleikfélag sýndi.
Í janúar 1989 kom út fyrsta bók Bjarna, ljóðabókin Upphafið sem hefur að geyma 36 ljóð, þar af einn 20 erinda frumspekilegan ljóðabálk.
Í september 1989 kom út önnur bók Bjarna, Ótal kraftaverk, sem er ljóðrænir prósar.
Í september 1990 komu samtímis út tvær bækur eftir Bjarna, ástarljóðabókin Urðafjóla, og smásagnasafnið Í Óralandi.
Í september 1992 kom út fyrsta skáldsaga Bjarna, Til minningar um dauðann, sem vakti athygli fyrir nýbreytni í efni og framsetningu.
Í september 1993 komu út sjö einþáttungar, Dagurinn í dag, sem má leika hvern og einn fyrir sig eða hvern á eftir öðrum svo úr verði sýning í fullri lengd.
Í september (enn og aftur í september!) 1994 kom út safnritið Vísland eftir Bjarna, þar sem fyrri verk birtast öll ýmist í heilu lagi eða lítið breytt, ásamt fimm ritgerðum um hugann og vitundina. Í ritgerðunum er maðal annars fjallað um orð og setningar sem urðu til í draumum, og þar er einnig mynd af afar sérstöku tæki sem er einskonar líking við vitundina, tæki sem Bjarna dreymdi og lét teikna fyrir sig.
Árið 1994 setti Bjarni einnig á stofn bókmenntatímaritið Andblæ. Þar birtu margir ungir og athyglisverðir höfundar efni.
Árið 1995 átti Bjarni vinningssögu „Sólarlag við sjávarströnd“ í smásagnasamkeppni Ríkisútvarpsins. Árið eftir kom út önnur skáldsaga Bjarna, Endurkoma Maríu sem var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 1996.
Í ágúst 1998 hlaut Bjarni bókmenntaverðlaun Reykjavíkurborgar fyrir skáldsögu sína Borgin bak við orðin.
Og síðan hafa fylgt, koll af kolli, skáldsögurnar Næturvörður kyrrðarinnar (1999), Mannætukonan og maður hennar (2001), Andlit (2003), Bernharður Núll (2007), Leitin að Audrey Hepburn(2009). Mannorð (2011) og Hálfsnert stúlka (2014). „Draumabókin“ Nakti vonbiðillinn kom út 2012.
Nýjasta bók hans, Dúnstúlkan í þokunni, var tilnefnd ti Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2023.