Eysteinn Björnsson fæddist á Stöðvarfirði 1942. Að loknu stúdentsprófi frá MA og námi í enskum bókmenntum hér á landi og í Dyflinni á Írlandi hóf hann störf sem kennari. Hann kenndi við Ármúlaskóla og frá 1978 til 2003 við Fjölbrautaskólann í Breiðholti, en hefur nú skriftir að aðalstarfi. Hann hefur skrifað greinar og pistla fyrir blöð og tímarit, samið handrit og haft umsjón með sjónvarps- og útvarpsþáttum.
Fyrsta bók hans, skáldsagan Bergnuminn, kom út árið 1989. Síðan hefur hann sent frá sér fleiri skáldsögur fyrir börn og fullorðna. Eysteinn hefur einnig gefið út ljóðabækur, auk þess sem smásögur og ljóð eftir hann hafa birst í safnritum og tímaritum og verið flutt í útvarpi.
Hjá Ormstungu kom út skáldsaga hans, Í skugga heimsins, árið 1999, og íslensk þýðing hans á sögu Nicks Hornby, Saga um strák, kom út 2004. Nýjasta bók Eysteins er unglingasagan Hrafnaspark (2010).
Eysteinn hefur hlotið viðurkenningar fyrir smásögur sínar og ein þeirra, The Whale, sem hlaut önnur verðlaun í alþjóðlegri bókmenntasamkeppni, birtist í erlendu safnriti.
Helstu verk:
Bergnuminn (1989)
Dagnætur (1993)
Snæljós (1996)
Fylgdu mér slóð (1998)
Í skugga heimsins (1999)
Út í blámann (2002)
Logandi kveikur (2005)
Stelpan sem talar við snigla (2006)
Hrafnaspark (2010)