Eysteinn Þorvaldsson

Eysteinn Þorvaldsson (1932–2020) var um langt skeið í fararbroddi þeirra sem fjallað hafa um ljóðagerð skáldanna sem tóku að bylta forminu um og eftir síðustu öld.

Hann kynnti sér manna best módernismann í íslenskri ljóðagerð og skrifaði um það efni bókina Atómskáldin sem kom út 1980. Jafnframt fylgdist hann grannt með þeim ungu skáldum sem síðar komu fram á sjónarsviðið undir nýjum straumum og stefnum.

Þá átti Eysteinn stóran þátt í að kynna Íslendingum ýmis úrvalsverk evrópskra bókmennta með því að þýða, í samvinnu við Ástráð son sinn, verk skálda eins og Franz Kafka og Max Frisch.

Drjúgur hluti af starfsævi Eysteins var helgaður bókmenntakennslu við Kennaraháskólann þar sem fræðistörfin snertu bæði sjálfan skáldskapinn og kennslu hans og kynningu. Um það efni skrifaði hann 1988 bókina Ljóðalærdómur, athugun á skólaljóðum handa skyldunámsskólum 1901–1979.

Í tilefni af sjötugsafmæli Eysteins sumarið 2002 kom út bókin Ljóðaþing sem hefur að geyma greinar, ritgerðir og erindi hans um íslenska ljóðagerð á 20. öld. Eysteinn hefur gefið út mörg úrvalsrit til lestrar í skólum og telst meðal frumkvöðla á því sviði.