Guðmundur Steinsson

Guðmundur fæddist á Eyrarbakka 19. apríl 1925. Foreldrar hans voru Þórunn Guðmundsdóttir og Gísli Jónsson. Þórunn var fædd og uppalin á Eyrarbakka, faðir hennar hét Guðmundur Steinsson, sonur Steins Guðmundssonar, sem var landskunnur skipasmiður á nítjándu öld og má enn líta handaverk hans á sjóminjasafni staðarins. Gísli var úr Eyrarsveit á Snæfellsnesi. Kenndi Guðmundur sig við hann þar til hann breytti föðurnafni sínu í Steinsson þegar skáldsaga hans, Maríumyndin, kom út 1958.

Guðmundur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1946 og hélt síðan til Bandaríkjanna, þar sem hann hóf nám í líffræði við Boston-háskóla. Eftir eitt ár hætti hann þó því námi, söðlaði um og fór til Frakklands, innritaðist í bókmenntir við Sorbonne-háskóla og dvaldi í París næstu fjögur ár.

Eftir að Guðmundur settist aftur að í Reykjavík um miðjan sjötta áratuginn kenndi hann tungumál í nokkur ár við Iðnskólann. Jafnframt því, og raunar miklu lengur, vann hann sem fararstjóri íslenskra ferðahópa erlendis, mest þó í Suðurlöndum, þar sem hann þekkti einna best til.

Síðari árin helgaði hann sig ritstörfunum einvörðungu. Hann kvæntist Kristbjörgu Kjeld, leikkonu við Þjóðleikhúsið, 10. ágúst 1962. Guðmundur lést í Reykjavík 15. júlí 1996.

Fyrsta leikrit Guðmundar sem flutt var á sviði, Forsetaefnið, var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu haustið 1964. Þá hafði hann lokið við fjögur önnur leikrit í fullri lengd.

Á sviði Grímu í Tjarnarbíói voru tveir af leikjum Guðmundar sviðsettir, Fósturmold árið 1965 og Sæluríkið 1969. Þjóðleikhúsið sýndi Lúkas á Litla sviðinu í Leikhúskjallaranum árið 1975. Síðar sýndi sama leikhús Sólarferð (1976) og Stundarfrið (1979). Fengu báðir leikirnir afbragðs undirtektir áhorfenda, einkum þó Stundarfriður, sem varð ein af vinsælustu sýningum leikhússins frá upphafi. Var farið tvisvar í leikför með hana til útlanda auk þess sem leikurinn var sýndur víða erlendis á næstu árum.

Árið 1982 sýndi Þjóðleikhúsið Garðveislu, 1987 Brúðarmyndina, 1995 Stakkaskipti, og 10. mars 2017 var Húsið sett upp í fyrsta sinn, um hálfri öld eftir að það var skrifað. Frumuppfærslan var í Þjóðleikhúsinu undir leikstjórn Benedikts Erlingssonar.

Brúðarmyndin var reyndar frumflutt árið 1986  í Bandaríkjunum á leiklistarhátíð í Connecticut kenndri við Eugene O’Neill. Leikritið var leiklesið, æft og flutt tvisvar af hópi íslenskra leikara undir stjórn Stefáns Baldurssonar.