Haraldur Bessason

haraldur_bessason

 

Haraldur Bessason (f. 1931), fyrrverandi prófessor í Winnipeg og háskólarektor á Akureyri, er þjóðkunnur fyrir störf sín vestan hafs og austan. Hann var prófessor á Íslendingaslóðum í Kanada í 31 ár og jafnframt eins konar óopinber sendiherra Íslands meðal Vestur-Íslendinga.

Hann tók þá á móti fjölda Íslendinga að heiman, stjórnmálaleiðtogum, listamönnum, fræðimönnum, bændum og öðru ferðafólki, liðsinnti íslenskum stúdentum og greiddi götu vestur-íslenskra stúdenta sem fóru til náms á Íslandi. Þá var Haraldur í forystu félagslífs og blaðaútgáfu vestra; ritstýrði m.a. Lögbergi-Heimskringlu og Tímariti hins íslenska þjóðræknisfélags um árabil. Hann stóð einnig fyrir umfangsmikilli fræðiritaútgáfu við Manitóbaháskóla, svo sem enskri þýðingu á Grágás og Landnámu. 

Við heimkomuna til Íslands varð Haraldur fyrsti rektor Háskólans á Akureyri og festi þá stofnun í sessi á átta ára farsælum rektorsferli. Eftir að hann lét af rektorsembætti kenndi hann um árabil við Háskólann á Akureyri en fluttist síðar með fjölskyldu sinni í Kanada þar sem hann sinnti skriftum og fræðistörfum af kappi.

Ormstunga gaf út bók hans, Bréf til Brands árið 1999 og 2001  afmælisritið Bréf til Haralds til heiðurs Haraldi sjötugum. Dagstund á Fort  Garry (svipmyndir) kom út 2007. Greinasafn hans, Guðir og menn kom út árið 2009.

Haraldur Bessason lést í Toronto í Kanada 8. apríl 2009.