Helgi Ingólfsson (f. 1957) lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Tjörnina 1977, prófi í uppeldis- og kennslufræði 1988 og B.A.-prófi í sagnfræði og bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 1994. Hann hefur kennt sögu, Íslandssögu jafnt sem mannkynssögu og listasögu, við Menntaskólann í Reykjavík frá 1984 og aðstoðaði við gerð Íslensku alfræðiorðabókarinnar 1988-1990.
Fyrsta bók Helga, Letrað í vindinn : samsærið, kom út árið 1994. Sögusviðið er Róm á tímum keisaraveldisins. Fyrir söguna hlaut Helgi Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar sama ár. Ári síðar kom út sjálfstætt framhald fyrri bókarinnar; Letrað í vindinn : þúsund kossar.
Eftir þetta sagði Helgi skilið við Rómaveldi sem sögusvið og færði sig yfir í gamansamar og farsakenndar frásagnir úr íslenskum samtíma. Hann hefur nú sent frá sér fjórar slíkar sagnir, Andsælis á auðnuhjólinu (1996), Blá nótt fram í rauða bítið (1997), Þægir strákar (1998) og Lúin bein (2002).
Fyrir bók sína, Þegar kóngur kom (2009), fékk Helgi Blóðdropann 2010, viðurkenningu Hins íslenska glæpafélags. Framtíðarsagan Runukrossar kom út 2010.
Kvikmyndin Jóhannes með Ladda í aðalhlutverki, sem var frumsýnd 15. október 2009, er gerð eftir sögunni Andsælis á auðnuhjólinu.
Eftir Helga liggja einnig smásögur, ljóð og greinar í fagtímaritum. Hann hefur einnig fengist við gerð námsefnis.