Herta Müller

Herta_Muller


„Ég fór í Norræna húsið á Bókmenntahátíð. Heillaðist af mexíkóska ljóðskáldinu Alberto Blanco. Svo kom Nawal El Sadaawi og fyllti húsið. Það er hörkukona. Herta Müller sat að snæðingi í matstofunni – hún er smávaxin og fíngerð kona, en andlitið er markað af lífsreynslu. Eftir að hafa lesið bók hennar sem nefnist Andarsláttur á íslensku hef ég sannfærst um að hún er eitt af stórskáldum samtímans. Ræða hennar við upphaf hátíðarinnar var mögnuð.“
– Egill Helgason, Eyjunni

Bergþóra Gísladóttir bloggar hér um Atemschaukel og hér um Ennislokk einvaldsins.


Herta Müller fæddist 1953 í Nitzkydorf í Rúmeníu. Móðurmál hennar er þýska. Á árunum 1975 til 1976 var hún við nám í háskólanum í Temeswar (Timişoara á rúmensku). Hún hefur búið í Þýskalandi síðan 1987.

Af verkum hennar má nefna Der Fuchs war damals schon der Jäger (skáldsaga 1992 – gefin út á íslensku 1995 hjá Ormstungu í þýðingu Franz Gíslasonar undir heitinu Ennislokkur einvaldsins), Der Wächter nimmt seinen Kamm (collage úr myndum og textum 1993), Herztier (skáldsaga 1994), Atemschaukel (skáldsaga 2009, íslensk þýðing Bjarna Jónssonar kom út í september 2011 undir heitinu Andarsláttur) og Immer derselbe Schnee und immer derselbe Onkel (ritgerðir 2011).

Fyrsta bók Hertu, smásagnasafnið Niederungen, kom út á þýsku í Rúmeníu árið 1982 og sætti ritskoðun rúmenskra stjórnvalda. Árið 1984 var bókin gefin út óritskoðuð í Þýskalandi og aftuir 2010. Müller og þáverandi eiginmaður hennar flúðu síðan land árið 1987 af ótta við aðgerðir rúmensku leynilögreglunnar.

Verk Hertu Müller hafa vakið mikla athygli víða um heim og fært henni viðurkennd bókmenntaverðlaun: Aspekte-Literaturpreis (1984), Ricarda-Huch-Preis (1989), Marie-Luise-Fleißer-Preis (1989), Kranichsteiner Literaturpreis (1991) og Kleist-Preis (1994).

Í desember 1995 hlaut hún evrópsku ARISTEION-bókmenntaverðlaunin fyrir Herztier. Sagan kom út í enskri þýðingu 1996 undir heitinu The Land of Green Plums og færði höfundi sínum hin rausnarlegu IMPAC-bókmenntaverðlaun sem var úthlutað í Dyflinni á Írlandi í júní 1998.

Herta Müller hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels 2009. Í tilkynningu akademíunnar segir, að Müller hafi dregið upp mynd af landslagi hinna landlausu með einbeitni ljóðsins og hreinskilni hins lausa máls. Ræða hennar við verðlaunaafhendinguna, sem vakti mikla athygli, er meðal efnis í ritgerðasafninu Immer derselbe Schnee und immer derselbe Onkel.

Tvær sögur Hertu Müller hafa komið út á íslensku, Ennislokkur einvaldsins (1995) og Andarsláttur (2011).