Hlín Agnarsdóttir

Hlin_Agnarsdottir

Hlín Agnarsdóttir er fædd í Reykjavík 1953. Stúdentspróf frá Menntaskólanum við Tjörnina 1973. Forspjallsvísindi og 1. stig í ensku frá Háskóla Íslands 1975. Hún lagði stund á leiklistarfræði við Uppsala- og Stokkhólmsháskóla og síðar leikstjórn í London.

Hlín hefur sent frá sér 3 bækur, skáldsöguna Hátt uppi við Norðurbrún (2001), sjálfsævisögulega verkið Að láta lífið rætast (2003) og nýjasta bók hennar er skáldsagan Blómin frá Maó (2009). Hlín hefur einnig skrifað leikrit fyrir leiksvið, útvarp og sjónvarp, m.a. toilettedramað Konur skelfa sem sýnt var við metaðsókn í Borgarleikhúsinu, og komið að öðrum handritaskrifum fyrir sjónvarp og aðra miðla.

Hún hefur leikstýrt í öllum helstu leikhúsum landsins, m.a. hjá Leikfélagi Akureyrar, Leikfélagi Reykjavíkur og í Þjóðleikhúsinu.

Hlín þýddi og leikstýrði Hræðileg hamingja eftir Lars Norén hjá Alþýðuleikhúsinu og síðar þýddi hún Laufin í Toscana fyrir Þjóðleikhúsið eftir sama höfund. Hlín skrifaði Láttu ekki deigan síga (ásamt Eddu Björgvinsdóttur) sem sýnt var í Stúdentaleikhúsinu. Önnur verk sem hún hefur skrifað og jafnframt leikstýrt eru: Karlar óskast í kór, Alheimsferðir Erna og Gallerí Njála. Sokkabandið sýndi verk hennar Faðir vor í Iðnó 2004.