Hlín Agnarsdóttir

Hlin_Agnarsdottir

Hlín Agnarsdóttir er fædd í Reykjavík 1953. Stúdentspróf frá Menntaskólanum við Tjörnina 1973. Forspjallsvísindi og 1. stig í ensku frá Háskóla Íslands 1975. Hún lagði stund á leiklistarfræði við Uppsala- og Stokkhólmsháskóla og síðar leikstjórn í London.

Hlín hefur sent frá sér fimm skáldsögur: Einlífi (2023), Meydómur (2021), Hilduleikur (2020), Blómin frá Maó (2009) og Hátt uppi við Norðurbrún (2001). Að auki skrifaði hún bókina Að láta lífið rætast – ástarsaga aðstandanda (2003) sem var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita og bóka almenns efnis.

Hún hefur leikstýrt í öllum helstu leikhúsum landsins, m.a. hjá Leikfélagi Akureyrar, Leikfélagi Reykjavíkur og í Þjóðleikhúsinu.

Hlín þýddi og leikstýrði Hræðileg hamingja eftir Lars Norén hjá Alþýðuleikhúsinu og síðar þýddi hún Laufin í Toscana fyrir Þjóðleikhúsið eftir sama höfund. Hlín skrifaði Láttu ekki deigan síga (ásamt Eddu Björgvinsdóttur) 1984 sem sýnt var í Stúdentaleikhúsinu. Önnur verk sem hún hefur skrifað og jafnframt leikstýrt eru: Karlar óskast í kór (1989), Alheimsferðir Erna (1993) og Gallerí Njála (1997) og toilettedramað Konur skelfa (1996) sem sýnt var við metaðsókn í Borgarleikhúsinu. Sokkabandið sýndi verk hennar Faðir vor í Iðnó 2004. Þá má nefna sjónvarpsleikritið Svannasöngur (1998) og leikritin Faðir vor (2004), Fundarherbergið/Lífið liggur við (2007), Hallveig ehf (2010), Flóttamenn (2011), Gestaboð Hallgerðar (2012), Perfect (2012) og Oníuppúr (2013).