Klaus Mann fæddist 1906, næstelsta barn Thomasar Mann, sem þá þegar var meðal fremstu rithöfunda Þjóðverja og fékk Nóbelsverðlaunin 1929. Bróðir Thomasar, Heinrich Mann, var einnig þekktur höfundur.
Klaus var sískrifandi frá unga aldri, hafnaði langskólanámi og flakkaði strax á unglingsárum um Þýskaland og nálæg lönd; eftir hann birtust greinar, ljóð, leikrit og sögur og átján ára varð hann leikhúsgagnrýnandi við víðlesið blað í Berlín. Hann starfaði einnig um hríð við leikhús, bæði sem leikari og leikstjóri.
Þekktustu verk hans eru Flucht in den Norden (1934), Symphonie Pathétique (1935), Mephisto (1936, ísl. þýðing 1995), Der Vulkan (1939) og Der Wendepunkt (1952) sem kom út að honum látnum. Klaus Mann var yfirlýstur andstæðingur nasistastjórnarinnar og sama ár og Hitler kemst til valda, 1933, flýr hann land. Hann lifir í útlegð til loka seinni heimsstyrjaldar. En mestalla ævina lifði hann eins og ferðamaður, eignaðist aldrei eigið heimili í vanalegum skilningi þess orðs, bjó oftast á hótelum. Klaus Mann svipti sig lífi 21. maí 1949, fjörutíu og tveggja ára gamall.