Kristinn R. Ólafsson, sem er löngu þjóðkunnur fyrir útvarpspistla sína frá Spáni, er fæddur í Vestmannaeyjum 1952 og bjó lengi á Spáni, lengst af í Madríd.
Árið 1979 birtist fyrsta bók Kristins, ljóðabókin Inní skóginn, rituð undir pennanafninu Krói. Nokkrar smásögur eftir hann hafa birst í blöðum og tímaritum eða verið lesnar í útvarp.
Hann hefur þýtt þrjár skáldsögur eftir spænska höfunda. Þær eru:
Paskval Dvarte og hyski hans (1988) og Býkúpan (1991), báðar eftir nóbelsskáldið Camilo José Cela, og Refskák eða Bríkin frá Flandri (1996) eftir metsöluhöfundinn Arturo Pérez-Reverte.
Fyrsta frumsamda skáldsaga Kristins, Fjölmóðs saga föðurbetrungs, kom út 1996. Pósthólf dauðans (1998) er önnur skáldsaga höfundar. Kristinn hefur sjálfur þýtt og endurritað báðar sögurnar á spænsku.
Sagan um Fjölmóð kom út í Barselónu í mars 2005 og nefnist á spænsku La Saga de Fiólmod el Intrépido. Sagan var upprunalega skrifuð á óvísindalegri forníslensku enda gerist hún á 12. öld á Íslandi, á Spáni og í öðrum heimum. Við þýðinguna/endurritunina hefur Kristinn R. leitast við að fyrna málfarið svolítið líka og sótt talsvert í smiðju Don Kíkóta eftir Cervantes í því sambandi.
Vorið 2003 kom sagan Pósthólf dauðans (Epitafio) út hjá bókaforlaginu Brosquil, einnig í þýðingu og endurritun höfundarins sjálfs.