„Einnig ég ætla að skrifa bók sem standa skal í hillu á stað sem þessum – og ég ætla að skrifa hana á ensku, því það er fegursta tungumál í öllum heiminum.“
Þetta segir kanadíska skáldkonan, Laura Goodman Salverson, á einum stað í sjálfsævisögu sinni Játningar landnemadóttur, sem ber enska titilinn Confessions of an Immigrant’s Daughter. Og hún stóð svo sannarlega við orð sín þessi vestur-íslenska landnemastúlka, sem mælti svo er hún kom í fyrsta sinn á bókasafn.
Salverson varð einn af kunnustu rithöfundum Kanada á fyrri hluta þessarar aldar. Stærstu verk hennar eru skáldsagan Viking Heart, sem kom samtímis út árið 1923 í London, New York og í Toronto, og Játningar landnemadóttur sem kom út árið 1939 í Kanada og fyrir þá bók hlaut hún æðstu bókmenntaverðlaun sem veitt eru þar í landi. Bókin hafði verið ófáanleg um árabil, en á því var ráðin bót snemma á níunda áratugnum og var það háskólinn í Toronto sem sá um útgáfuna.
Foreldrar Lauru Salverson voru Lárus Guðmundsson frá Ferjukoti og Ingibjörg Guðmundsdóttir frá Kollsá í Strandasýslu, og eru þau í bókinni nefnd Lars og Borga Goodman. Þau komu til Manitoba árið 1887.
Laura fæddist árið 1890 í Winnipeg. Fyrstu ár ævinnar þjáðist hún af veikindum og var á stundum vart hugað líf. Hún gat af þeim sökum lítið tekið þátt í leik barna sem voru á hennar reki, og skólagangan varð fyrir bragðið stopul í fyrstu. En ímyndunarafl hennar var ríkt og næm var hún á umhverfi sitt. Laura lést 1970.
Helstu verk:
Hidden Fire (smásaga) (1922)
The Viking Heart (1923)
When Sparrows Fall (1925)
Lord of the Silver Dragon (1928)
The Dove of El-Djezaire (1933)
The Dark Weaver (1937)
Confessions of an Immigrant’s Daughter (1939)
Immortal Rock: The Saga of the Kensington Stone (1955)