Unnur Guttormsdóttir fæddist 18. október 1941 í Reykjavík. Hún er sjúkraþjálfari og einn af stofnendum og leikskáldum Hugleiks, áhugaleikfélags í Reykjavík. Ásamt Önnu Kristínu Kristjánsdóttur samdi hún Ofleikinn Sagan um Svein sáluga Sveinsson í Spjör og samsveitunga hans sem frumsýndur var 1991 og Óleikinn Ég bera menn sá sem frumsýndur var tveimur árum síðar; í báðum tilvikum af Hugleikurum. Þær stöllur sömdu einnig handrit að stuttmyndinni Það er víst óskaplega fallegt hérna (1992) fyrir Ferðafélag Íslands en myndin fjallar um gönguferð í þoku á Hornströndum undir stjórn Sigrúnar Valbergsdóttur.
Unnur hefur skrifað fleiri leikrit fyrir Hugleik. Í samvinnu við Ingibjörgu Hjartardóttur og Sigrúnu Óskarsdóttur samdi hún leikritin Sálir Jónanna (1986), Ó, þú…. (1987) og að viðbættri Hjördísi Hjartardóttur Um hið átakanlega og dularfulla hvarf ungu brúðhjónanna Indriða og Sigríðar daginn eftir brúðkaupið og leitina af þeim (1988). Í tilefni af ári aldraða 1999 sömdu Unnur, Anna Kristín Kristjánsdóttir, Fríða B. Andersen, Ingibjörg Hjartardóttir og Sigrún Óskarsdóttir revíuna Ellismell. Gamanleikurinn Stóra hangikjöts-, Orabauna- og rófumálið: Taðreyktur sakamálstryllir var síðan frumsýndur 2015 en hann samdi Unnur ásamt Önnu Kristínu Kristjánsdóttur og Sigrúnu Óskarsdóttur. Þá samdi Unnur einnig og leikstýrði stuttmyndunum Hver unir glaður við sitt (1989) og Lyndisglaður leik ég mér þroskasögu þriggja barna (1992).
Árið 1995 skrifaði Unnir gamansama leikþáttinn Fjötur um fót ásamt Önnu Kristínu Kristjánsdóttur og Fríðu B. Andersen en fyrir hann hlutu þær fyrstu verðlaun í leikritasamkeppni sem Sjálfsbjörg í Reykjavík, Halaleikhópurinn og Samband íslenskra sveitarfélaga efndu til. Leikþátturinn var ætlaður til upplýsingar og fræðslu um aðgengis- og ferlimál fatlaðra. Verkið segir frá Fal Atla, sem er fatlaður í hjólastól, og stórfurðulegri martröð hans um Fatlavík. Athygli áhorfenda var vakin á öllum þeim fjölda hindrana sem blasa við hreyfihömluðum í daglegu lífi þeirra, jafnframt því sem reynt var að vekja fólk til vitundar um að þarfir fatlaðra eru þær sömu og allra annarra, sem sagt samneyti við aðrar manneskjur á jafnréttisgrundvelli.
Árið 2011 kom út fyrsta ljóðabók Unnar, Það kviknar í vestrinu, sem hefur að geyma ljóðminningar frá björtum sumrum í sveitinni í Grundarfirði.
Ljóð eftir Unni hafa einnig birst í ljóðabókum ljóðahóps sem kenndur er við Gjábakka í Kópavogi auk þess sem bernskuminningar eftir hana má finna í bókinni Send í sveit.
Ljóðabók:
- Það kviknar í vestrinu (2011).
Leikrit:
- Sálir Jónanna (1986) ásamt Ingibjörgu Hjartardóttur og Sigrúnu Óskarsdóttur.
- Ó, þú…. (1987) ásamt Ingibjörgu Hjartardóttur og Sigrúnu Óskarsdóttur.
- Um hið átakanlega og dularfulla hvarf ungu brúðhjónanna Indriða og Sigríðar daginn eftir brúðkaupið og leitina af þeim (1988) ásamt Hjördísi Hjartardóttur, Ingibjörgu Hjartardóttur og Sigrúnu Óskarsdóttur.
- Sagan um Svein sáluga Sveinsson í Spjör og samsveitunga hans (1991) ásamt Önnu Kristínu Kristjánsdóttur.
- Ég bera menn sá (1993) ásamt Önnu Kristínu Kristjánsdóttur.
- Fjötur um fót (1995) ásamt Önnu Kristínu Kristjánsdóttur og Fríðu B. Andersen.
- Ellismellur (1999) ásamt Önnu Kristínu Kristjánsdóttur, Fríðu B. Andersen, Ingibjörgu Hjartardóttur og Sigrúnu Óskarsdóttur.
- Stóra hangikjöts-, Orabauna- og rófumálið: Taðreyktur sakamálstryllir (2015) ásamt Önnu Kristínu Kristjánsdóttur og Sigrúnu Óskarsdóttur.
Handrit að stuttmyndum
- Hver unir glaður við sitt (1989)
- Lyndisglaður leik ég mér þroskasögu þriggja barna (1992).
- Það er víst óskaplega fallegt hérna (1992) ásamt Önnu Kristínu Kristjánsdóttur.
Ljóðahópur Gjábakka
2014 Lífið er ljóð
2015 Út í vorið
2017 Vesturglugginn
2018 Vorlaukar : ljóð og litlar sögur
2019 Guðað á glugga : ljóð og litlar sögur
2020 Haustlyng : ljóð og litlar sögur