Richard Dawkins

richard_dawkins

Richard Dawkins (fæddur 1941 í Nairobi) er breskur atferlisfræðingur, þróunarlíffræðingur og rithöfundur. Árið 1995 varð hann fyrstur til að gegna prófessorsstöðu fyrir „Public Understanding of Science“ við Oxford-háskóla og gegndi henni til 2008.

Fyrsta bók hans, The Selfish Gene, vakti heimsathygli þegar hún kom út 1976 og varð metsölubók víða um heim. Í þeirri bók varpar hann nýju ljósi á þróunarkenningu Darwins með framgangi genanna sem orsök og driffjöður þróunarinnar. Bókin telst nú til grundvallarrita þróunarlíffræðinnar.

Margar fleiri bækur um þróun lífsins og skyld efni fylgdu í kjölfarið (sjá listann undir myndinni). Mesta athygli og deilur  vakti The God Delusion sem kom út 2006 en í þeirri bók tekur höfundurinn einarða afstöðu gegn hvers kyns trú á æðri máttarvöld og færir fyrir því sannfærandi rök. Íslensk útgáfa  Ranghugmyndin um guð  í þýðingu Reynis Harðarsonar kom út í september 2010.

Vefsetur Dawkins: The Richard Dawkins Foundation for Reason and Science