Stefán Snævarr

Stefán Snævarr er fæddur í Reykjavík árið 1953. Hann er doktor í heimspeki frá Háskólanum í Bergen  (1998),  dósent í þeim fræðum við Háskólann í Lillehammer 1998–2003 og prófessor á sama stað frá 2003. Hann hefur sent frá sér skáldverk og fræðirit heimspekilegs eðlis á ýmsum tungumálum, m.a. um stjórnspeki og fagurfræði.

Doktorsritgerð Stefáns ber heitið Minerva and the Muses. The Place of Reason in Aesthetic Judgement (1999). Bókin er að sögn höfundar tilraun til að hrekja hugmyndina um að dómar um gæði listaverka séu öldungis smekkbundnir og huglægir.

Sjö skáldverkanna eru ljóðabækur:

Limbórokk (1975), Sjálfssalinn (1981), Greifinn af Kaos (1984), Hraðar en ljóðið (1987), Stefánspostilla (1988), Bragabar (1989), Ostraka (1997).

Rómúlía hin eilífa – sýnisbók rómúlskra bókmennta (2002) hefur að geyma smásögur og ljóð.

Síðustu bækur hans á íslensku eru Kredda í kreppu (2011), Bók bókanna (2013) og Bókasafnið (2017).

Árið 2010 hlaut Stefán fyrstu verðlaun í ritgerðarsamkeppni Alþjóðasamtaka fagurfræðinga (The International Association of Aesthetics).