Sveinn Einarsson

sveinn_einarsson

Sveinn Einarsson (f. 1934) er löngu þjóðkunnur maður fyrir störf sín í leikhúsi. Auk þess að hafa verið leikhússtjóri fyrst hjá Leikfélagi Reykjavíkur 1963–1972 og síðar hjá Þjóðleikhúsinu 1972–1983, hefur hann leikstýrt fjölda leiksýninga og ópera  bæði hérlendis og erlendis.

Sveinn var dagskrárstjóri sjónvarpsins 1989–1993. Formaður stjórnar Listahátíðar í Reykjavík 1998–2000.

Hefur leikstýrt yfir 70 leiksýningum heima og erlendis, m.a. nokkrum frumuppfærslum, óperum, sígildum verkum og nútímaverkum. Einnig hefur hann stjórnað leikritum í sjónvarpi og útvarpi.

Hann hefur gegnt ótal trúnaðarstörfum tengdum menningarmálum heima og erlendis, var m.a. varaforseti Alþjóðaleikhússtofnunarinnar ITI (1979–1981), formaður Leiklistarsambands Íslands (1973–1989), Leikskáldafélags Íslands (1985–1989) og íslensku UNESCO-nefndarinnar síðan 1994.

Sveinn hefur að auki skrifað mörg leikrit og eftir hann hafa komið út margar bækur, bæði fræðibækur og skáldsögur.

Á þeim árum sem hann stjórnaði leikhúsunum vann hann kappsamlega að því að efla íslenska leikritun og gerði það að sínu baráttumáli.

Hinn 16. júní 2003 hlaut Sveinn fyrstur manna Gullgrímuna, heiðursverðlaun Leiklistarsambands Íslands.

Af verkum Sveins Einarssonar eru þessi helst:


BÆKUR:
Leikhúsið við Tjörnina (1972)
Níu ár í neðra (1984)
Gabríela í Portúgal (1985)
Íslensk leiklist I og II (1991–1996)
Dordingull (1994)
Rafmagnsmaðurinn (1998)
Ellefu í efra – minningar úr Þjóðleikhúsi (2000)
A people’s theatre comes of age – a study of the Icelandic theatre 1860–1920 (2006, 2. útg. 2007)
Leiklistin í veröldinni – ágrip af almennri leiklistarsögu (2007)
Af sjónarhóli leikstjóra (ritstjóri Trausti Ólafsson) (2012)
Kamban – líf hans og starf (2013)
Eimskipið Gullfoss siglir yfir Atlantshafið árið 1925 – ein lítil ferðasaga (2014)
Á sviðsbrúninni (2021)


LEIKRIT:
Viðkomustaður (Sjónvarpið 1970)
Hugarleiftur (1971)
Fjöreggið (Leikfélag Reykjavíkur 1984)
Ég er gull og gersemi (Leikfélag Akureyrar 1985)
Búkolla (Þjóðleikhúsið 1991)
Bandamannasaga (Bandamenn 1992)
Amlóðasaga (Bandamenn 1996)
Dóttir skáldsins (The Icelandic Take-away Theatre 1997)
edda. ris (Bandamenn 2000)
Nokkur sjónvarps-og útvarpsleikrit.


LEIKGERÐIR:
Kristnihald undir Jökli eftir Halldór Laxness (1970)
Atómstöðin eftir Halldór Laxness. Ásamt Þorsteinni Gunnarssyni (1972)
Hús skáldsins eftir Halldór Laxness (1981)
Bandamanna saga (1992)
Þýðingar á leikritum eftir Henrik Ibsen, Dario Fo, Samuel Beckett, René Obaldia, Kaj Munk, August Strindberg, Molière o.fl.