William D. Valgardson

Bill Valgardson fæddist á Gimli í Nýja Íslandi árið 1939. Langafi hans, Ketill Valgarðsson, kom 18 ára gamall af Snæfellsnesi ásamt föður sínum, Valgarði Jónssyni, og settist að í Nýja Íslandi 1876. Sonur hans var Sveinbjörn H. Valgardson, kunnur smiður og aflakló.

Faðir skáldsins, Alfred H. Valgardson, var fiskimaður og verkalýðsleiðtogi og kvæntist konu af írskum ættum.

Bill Valgardson komst í fremstu röð kanadískara rithöfunda með smásögu sinni Bloodflowers sem út kom 1973 (bókin kom út í íslenskri þýðingu Guðrúnar Guðmundsdóttur árið 1989 undir heitinu Blóðrót). Önnur smásagnasöfn eru God Is Not A Fish Inspector (1975), Red Dust (1978) og What Can´t Be Changed Shouldn’t Be Mourned (1990). Ljóðabækur hans eru In The Gutting Shed (1978) og The Carpenter of Dreams (1986).

Bill hefur skrifað tvær skáldsögur, Gentle Sinners (1980) og The Girl With The Botticelli Face (1992). Fyrir þá bók fékk höfundurinn Ethel Wilson bókmenntaverðlaunin. Hún kom út á íslensku 1995 undir heitinu Stúlkan með Botticelli-andlitið.

Frá því að Bill lauk við The Girl With The Botticelli Face hefur hann einkum skrifað fyrir börn. Fyrsta barnabókin var Thor sem var kjörin besta bók 1994 fyrir 5–7 ára börn (Mr. Christie Award – kom út í Bandaríkjunum undir heitinu Winter Rescue). Sagan hefur einnig komið út í íslenskri þýðingu Guðrúnar B. Guðsteinsdóttur (Thor, Ormstunga, 1996). Sarah and the People of Sand River kom út 1996. Báðar þessar sögur gerast á slóðum Vestur-Íslendinga. Sú síðarnefnda fjallar um íslenska stúlku í hópi vesturfara árið 1890.

Auk ljóða- og sagnagerðar hefur Bill skrifað bæði fyrir útvarp og sjónvarp. Af tíu útvarpsleikritum má nefna The Man from Snæfellsnes sem var flutt í Ástralíu. Þótt þessi saga fjalli sérstaklega um ferðir Íslendinga til Kanada og tengsl Vestur-Íslendinga við gamla landið, hefur hún fengið hljómgrunn langt út fyrir raðir þeirra.

Fimm kvikmyndir hafa verið gerðar eftir sögum hans, þar á meðal Gentle Sinners sem sýnd hefur verið víða um lönd.

Þó að Bill hafi búið í Victoria, B.C. frá því snemma á áttunda áratug tuttugustu aldar var það ekki fyrr en með The Girl With The Botticelli Face að hann sótti efnivið þangað. Sagan olli miklum úlfaþyt þar sem söguslóðirnar eru auðþekkjanlegar. Annars hefur hann langmest sótt söguefni sín til æskuslóðanna í Nýja Íslandi. Þar segir frá bændum, fiskimönnum, veiðimönnum, verkamönnum og fjölskyldum þeirra. Það vekur í sífellu furðu höfundar hversu góðan hljómgrunn þessar sögur hafa fengið, ekki aðeins hjá Íslendingum heldur einnig í Rússlandi, Úkraínu, Hollandi, og nú síðast í Bandaríkjunum.

Auk þess að skrifa sjálfur hefur Bill Valgardson kennt mönnum að skrifa bækur í háskólanum í Victoria allar götur síðan 1974 og alið upp marga af helstu höfundum Kanada af yngri kynslóð. Þess á milli klifrar hann í fjöllum, leggur stund á gönguferðir og dansar þjóðdansa.

Hann var einn af gestum Bókmenntahátíðar í Reykjavík 1995 en áður hafði hann heimsótt Ísland 1986 og 1989.