Jón á Bægisá

Áskrift  Yfirlit  Erlendir höfundar og þýðendur │ Íslenskir höfundar og þýðendur


 

Tímarit um þýðingar

Frá og með 15. tölublaði er útgefandi Jóns á Bægisá Þýðingasetur Háskóla Íslands.
Fyrstu fjórtán heftin eru aðgengileg á www.timarit.is

Kaupa 15. tölublað
Kaupa 16. tölublað

 

Úr ritstjórnarspjalli fyrsta tölublaðsins:

Allar götur síðan Oddur heitinn Gottskálksson stalst út í fjós til að þýða Nýja testamentið hafa mætustu menn átt það til að verða gagn- og jafnvel helteknir af þessari áráttu: að þýða. Þýða hvað sem tautaði og raulaði, jafnvel kauplaust, úti í fjósi eða uppi á kirkjulofti, og án þess að eiga nokkra von um útgefanda, hvað þá lesendur. Sem betur fer hefur oft ræst úr fyrir þeim: þýddar bækur hafa verið gefnar út og jafnvel lesnar. (En sjaldan ritdæmdar að gagni. Hver þekkir ekki klisjuna sem virðist ómissandi í sérhverri umsögn um þýdda bók: „Því miður átti ég þess ekki kost að bera þýðinguna saman við frumtexta, en …“)

Þessi árátta. Hvaðan skyldi hún koma? Maður les eitthvað – sögu eða ljóð – á erlendu máli, og er ekki í rónni fyrr en þessi tiltekni texti er orðinn íslenskur. Af hverju? Af greiðasemi við þjóðina, svo að hún megi njóta heimsbókmennta á sínu móðurmáli? Af óviðráðanlegri löngun til að glíma við orð og hugsanir annarra? Af því bara? Aðeins eitt er víst: ekki er það af gróðafíkn. Það verður enginn ríkur af að þýða bókmenntir. Við skulum af þessu draga þá ályktun að þýðingarstarfið sé göfug iðja.

Á Íslandi fást margir við að þýða bókmenntir. Viðfangsefnin eru jafnmarg­breytileg og þýðendurnir. Hvatirnar sem að baki búa sömuleiðis. Tímaritinu sem hér hefur göngu sína og kennt er við þann merka átjándualdarklerk og ljóðaþýðanda Jón Þorláksson á Bægisá (eða Bæsá einsog þeir segja fyrir norðan) er ætlað að birta efni sem til er komið vegna þeirrar áráttu sem lýst var hér að framan, afrakstur göfugrar iðju – því geta  lesendur treyst.

[heim]