Frá ritstjórum (15. tbl)

Jón á Bægisá upp risinn.
Jón á Bægisá hefur legið í dvala undanfarin ár af ýmsum ástæðum. Fækkun varð í ritnefnd þegar Ingibjörg Haraldsdóttir og Sigurður A. Magnússon létu af störfum og áður hafði Franz Gíslason fallið frá. Ljóst er að það munar um slíka starfskrafta og er þeim öllum þakkað fyrir mikil og vel unnin störf fyrir Jón árin löng og mörg. Nú hefur verið ákveðið taka upp þráðinn að nýju og að þessu sinni tekur Þýðingasetur Háskóla Íslands að sér verkefnið að frágengnu samkomulagi við Gísla Má Gíslason fyrir hönd bókaforlagsins Ormstungu sem gaf út Jón á Bægisá 1994-2010. Gísli og Ormstunga verða þó áfram viðriðin útgáfu ritsins og þetta hefur ekki nein stórkostleg áhrif á ritið í sjálfu sér. Eftir sem áður verður meginefni ritsins annarsvegar fræðigreinar, frumsamdar og þýddar, sem og önnur umfjöllun um þýðingar og hins vegar þýðingar á fagurbókmenntum. Frumsamdar fræðigreinar, sem eru ritrýndar, taka á ýmsum athyglisverðum og lítt rannsökuðum málefnum er varða þýðingar á Íslandi, eins og verið hefur hingað til, og þýðingarnar opna glugga að ýmsum kimum heimsbókmenntanna sem annars stæðu mörgum lokaðir.

Í þessu nýja hefti kennir margra og mismunandi grasa; hér má finna þýðingar á ljóðum, örsögum og smásögum eftir höfunda frá Rússlandi, Grikklandi, Ástralíu, Englandi, Bandaríkjunum og Kína, og einnig enskar þýðingar á verkum íslenskra höfunda. Sigurður A. Magnússon þýðir ljóð eftir gríska Nóbelsskáldið Ódýsseas Elýtís og skrifað skrifar stutt yfirlit um skáldið og er óhætt að segja að hér sé um stórbrotinn kveðskap að ræða og listilega þýddan. Önnur þýðing sem telja má til tíðinda er eftir Kristján Eldjárn, fyrrum forseta, á sögufrægu ljóði eftir Thomas Gray (1716-1771), en um aðrar þýðingar á því ljóði (eftir Einar Benediktsson og Pál Bjarnason) fjallaði Magnús Fjalldal í grein í Jóni á Bægisá 14/2010. Önnur ljóð eru eftir kínverska skáldið Bei Dao í þýðingu Geirs Sigurðssonar, þýska skáldið Peter Huchel í þýðingu Gauta Kristmannssonar, hvítrússnesku skáldkonuna Valzhynu Mort í þýðingu Jóns B. Atlasonar og rússneska skáldið Égor Letov í þýðingu Olgu Markelovu.

Prósatextar eru nokkrir og fjölbreyttir að formi. Fyrsta má nefna þjóðsögu frá Nikaragva í þýðingu Baldurs Óskarssonar. Rúnar Helgi Vignisson og Vilborg Halldórsdóttir þýddu smásögu eftir frumherja kvenna í áströlskum bókmenntum, Barböru Baynton (1857-1929). Einnig má hér finna þýðingu á smásögu eftir William Carlos Williams í þýðingu Vilhjálms Gunnarssonar. Auk þess er að finna í heftinu þýðingar á ensku: Christopher Crocker þýddi nokkra smáprósa eftir Jón Thoroddsen yngri, Kendra Willson ljóð eftir Þórarin Eldjárn og Ágústa Lyons Flosadóttir ljóð eftir Snorra Hjartarson.

Fræðigreinarnar eru einnig af fjölbreyttum toga. Ástráður Eysteinsson fjallar um stöðu þýðinga í bókmenntasögu, Jón Friðjónsson um biblíuþýðingar og Martin Ringmar um fyrstu þýðinguna á Pippi Långstrump sem gerð var á heimsvísu, en hún var á íslensku og birtist undir heitinu „Lóa langsokkur“, aðeins örfáum mánuðum eftir að frumtextinn kom út á sænsku. Einnig er hér birtur upphafskafli úr klassísku og víðkunnu riti enska fræðimannsins A. C. Bradleys (1851-1935) um harmleiki Shakespeares. Sú þýðing kemur úr eftirlátnum ritum Helga Hálfdanarsonar heitins sem óhætt er að telja einn mikilvægasta þýðanda í sögu lands og tungu. Helgi þýddi þessa bók í heild og er stefnt að útgáfu hennar fljótlega. Hún er einskonar aukaframlag í þann dýrmæta sjóð sem Helgi skildi eftir með þýðingum sínum á leikritum Shakespeares.

Ritstjórar þessa heftis eru Ástráður Eysteinsson, prófessor í bókmenntafræði við Háskóla Íslands, og Gauti Kristmannsson, prófessor í þýðingafræði við sama skóla, en Gauti starfaði í fyrri ritnefnd frá aldamótunum síðustu. Þýðingasetur Háskóla Íslands hefur, eins og fyrr er getið, tekið að sér að annast útgáfuna í samvinnu við Ormstungu og er markmiðið að fleiri ritstjórar komi að verkinu með tímanum, en í ritnefnd starfa núna, ásamt ritstjórum, þau Rúnar Helgi Vignisson, dósent í ritlist við Háskóla Íslands, og Æsa Strand Viðarsdóttir, bókasafns- og upplýsingafræðingur. Stefnt er að því að Jón á Bægisá komi hér eftir út reglulega, einu sinni á ári. Standa vonir okkar til að gamlir og nýir áskrifendur hafi gagn og gaman af og að ritið verði, eins og áður, vettvangur nýmæla jafnt í þýðingum sem og í þeirri umræðu um bókmenntir og þýðingar sem er einkar brýn en ekki verður gengið að vísri annars staðar á íslensku.