Frá ritstjórum (16. tbl.)

Þá lítur Jón á Bægisá aftur dagsins ljós eftir dálitla töf og vonum við að innihaldið sé biðarinnar virði. Í heftinu kennir margra grasa, einkum fræðigreina og þýðinga. Fyrsta skal þó telja stutta minningargrein um Sigurð A. Magnússon, en með honum eru allir fyrstu ritnefndarmenn Jóns á Bægisá fallnir frá, þau Franz Gíslason, Jóhanna Þráinsdóttir, Ingibjörg Haraldsdóttir og nú Sigurður, en hann lést fyrir tveimur árum, skömmu eftir að síðasta hefti Jóns á Bægisá kom út. Sannarlega skarð fyrir skildi, en við höldum ótrauð áfram og vonandi verða aðrir til að taka við af þeim sem nú um útgáfuna véla. Við birtum einnig brot úr þýðingaverki Sigurðar.

Tekið skal fram að nú sem endranær nýtur Jón á Bægisá fulltingis Gísla Más Gíslasonar í Ormstungu, en hann annast umbrot og allan frágang tímaritsins.

Fyrsta fræðigreinin er eftir Magneu J. Matthíasdóttur og fjallar um sálmaþýðingar sem náðu miklu flugi við siðbreytinguna og urðu sálmar, þýddir og frumsamdir, mikilvæg snerting almennings á Íslandi við kveðskap. Sálmar voru sungnir við hverja messu og viðhéldu þannig mörgum mikilvægum þáttum tungumálsins. Magnea vinnur nú að doktorsritgerð um sálmaþýðingar.

Við förum í allt aðra átt í næsta hluta, en þar er um að ræða þýðingu Hrafnhildar Þórhallsdóttur á smásögunni „Heilindi“ eftir Robin Hemley, sem helst er þekktur fyrir óskálduð skrif, en hann hefur einnig skrifað skáldskap.

Við tekur svo fræðigrein, en stefnan er að láta fræði og skáldskap skiptast á eftir því sem hægt er. Marion Lerner, dósent í þýðingafræði, er höfundur greinarinnar „Fram í sviðsljósið“ og snýst hún um sýnileika, íhlutun, blöndun og skjönun sem aðferðir í femínískri og hinsegin þýðingafræði.

Þá er komið að Dada-istum, en Benedikt Hjartarson hefur þýtt eina af frægum yfirlýsingum þeirrar stefnu sem ber heitið „Stefnuyfirlýsing herra Kvalastillis“ og er eftir Tristan Tzara.

Því næst koma þrjú ljóð eftir Emily Dickinson í þýðingu Magnúsar Sigurðssonar og tengjast þau fræðigrein hans, „Þýðandinn sem höfundur“, um þýðingar á ljóðum skáldkonunnar bandarísku sem alla tíð hefur þótt dularfull og sérstök, ekki síst eftir að frægðarsól hennar reis hátt á síðustu öld. Magnús hefur unnið að doktorsritgerð um Emily Dickinson undanfarin ár.

Við tekur svo önnur fræðigrein; Ástráður Eysteinsson þýddi grein um bandaríska skáldið Charles Olson eftir Jeffrey Gardiner, sem er sérfróður um þennan höfund sem hingað til hefur fengið litla athygli á Íslandi. Greinin ber titilinn „Charles Olson og Maximusarljóðin“. Ástráður þýðir einnig nokkur ljóð úr þeim ljóðabálki eftir Olson og má segja að hann komi loksins fram á sjónarsviðið hér á landi með þeim þýðingum. Ástráður skrifar einnig grein um ljóðin og þýðingarnar og ber hún titilinn „Dansað á þreskigólfinu. Maximus – þar og hér, þá og nú“.

Eftir þessa rækilegu heimsókn í bandarískan ljóðlistarheim, er haldið austur um Atlantsála og kveðið dyra hjá Goethe, höfuðskáldi Þjóðverja. Fyrst með þýðingu Gauta Kristmannssonar á „Prómeþeifi“, einu þekktasta kvæði Goethes frá Sturm und Drang tímabilinu og er það birt ásamt frumtexta en skýringartexti fylgir. Gauti skrifar einnig grein sem ber titilinn „Goethe í íslenskum búningi“ þar sem rýnt er í nokkrar ljóðaþýðingar á jöfrinum þýska. Flestar þeirra þýðinga koma úr smiðju manna sem fengið hafa sæmdarheitið „þjóðskáld“ og í kjölfarið kemur svo ljóð eftir enn eitt þjóðskáldið, „Þorsklof“ eftir Hannes Hafstein, ásamt þýðingu Júlíans M. D’Arcys, en upp á ensku heitir það „In Praise of Cod“ sem er jafnframt skemmtilegur orðaleikur á ensku. Þetta kvæði kallast einhvern veginn á við annað frægt kvæði eftir skoska þjóðskáldið Robert Burns, „Address to a Haggis“.

Botninn í heftið slær svo Gunnar Þorri Pétursson með ræðu sinni við afhendingu Íslensku þýðingaverðlaunanna á Gljúfrasteini 16. febrúar síðastliðinn og ber hún titilinn „Þýðingar eru Efra-Breiðholt íslenskra bókmennta“.

Megi lesendur vel njóta.

Öll hefti þessa tímarits eru með vissum hætti tileinkuð þýðandanum sem ritið dregur nafn sitt af: Jóni Þorlákssyni á Bægisá. Það á sérstaklega við um þetta hefti, því á árinu 2019, nánar tiltekið þann 21. október, verða liðin 200 ár frá andláti þessa prests og skáldbónda sem með þýðingum sínum markaði afdrifarík spor í sögu íslenskrar menningar og bókmenntasköpunar.