Skráð

„Með bitastæðari bókum sem ég hef lesið undanfarna mánuði.“

Þorgeir Tryggvason skrifar á facebook-síðu sinni í dag:

„Ég staldra við ryðgaða tunnu í steinsteyptu porti þar sem balalækan grét og mandólínið gaf frá sér síðasta hljóminn, þú opnar bakdyrnar út í portið, stendur á hvítum hlýrabol, hver vöðvi þaninn, hver taug strekkt þegar þú mannýgur mölvar hljóðfærin á hvassri brún tunnunnar, járnið rífur mjúkan spóninn, tætlurnar sáldrast um loftið, strengirnir æpa.“

Ég hef lítið komist til að lesa „framhjá Kiljunni“ þetta flóðið. En í gær gafst tóm og ég greip upp Meydóm Hlínar Agnarsdóttur þegar ég kom heim úr vinnunni og lagði hana varla frá mér fyrr en ég hafði lokið lestinum. Samt er þetta nú að mestu kunnugleg saga. Eins og allar sannsögur: einstök og almenn í senn. Hið kunnuglega gerir það mögulegt að máta sig við lífsreynslu höfundar, hið sérstaka er gjöfin sem víkkar út vitund og heim lesandans.

Meydómur er framúrskarandi dæmi um mátt og mikilvægi persónulegra upprifjunar- og uppgjörsbóka. Listlilega skrifuð, grundvölluð á næmri og viðamikilli sjálfsskoðun, full af myndum af menningu sem mótaði sálarlíf, siðferði og hegðunarmynstur kynslóðar höfundar og foreldra hennar, og endurómar enn, til góðs og ills. Með bitastæðari bókum sem ég hef lesið undanfarna mánuði.