Efni
Aðalpersónur þessarar sögu eru Markús sem í upphafi sögunnar vinnur í Landsbankanum og Harpa, sambýliskona hans, sem starfar í Kaupþingi. Þau eru 28 og 27 ára. Sögusviðið er Reykjavík veturinn 2008–2009.
Markús fer eftir ráðgjöf vinar síns og heldur dagbók eftir að hafa misst starfið í bankanum. Skömmu síðar missir Harpa vinnuna en lætur ekki deigan síga og innan skamms fær hún nýtt starf sem afleysingakennari í grunnskóla.
Markús aftur á móti leggst í bókalestur og leitar skjóls í dagbókinni sem brátt verður að minnisbók og stefnir í að verða skáldskaparlegt sjónarhorn á viðburði vetrarins og framtíðarmissinn sem fylgir í kjölfarið. Frásögn Markúsar hefur tilhneigingu til að hverfast um ástkonuna. Hún verður fljótlega aðalviðfangsefnið en hin mótaða framtíð virðist mega sín lítils; það er engu líkara en lífið sé ekkert nema skáldsaga í mótun.
Úr verður ástarsaga, spennusaga og glímusaga. En líka ævintýri, og á sama tíma látlaus saga og samt óvænt saga. Eftirminnileg frásögn af áhrifum bankahrunsins á veruleika okkar og þankagang.
Guðmundur Óskarsson fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin 2009 fyrir Bankster.
Útgáfur:
2009 – harðspjöld – 179 bls.
2010 – kilja – 176 bls.
2023 – rafbók