Efni
„Gjörnýttu allt matarkyns nema hið þunna af kinnfiski þorsksins, því sá sem það gerir verður lyginn.“
„Elskaðu íslensku kartöflurnar í allri sinni ófrýnd eins og sjálfan þig.“
„Reyndu að semja eggjakökurnar í e-moll, því þær eru mjúkar og rakar að innan, hörundsbjartar að utan.“
Í þessari bók fer saman allra handa fróðleikur um hráefni og matreiðslu, fæðusagnfræði, menningarsaga og matartengdar frásagnir. Í bókinni er að finna allt frá ódýru og auðveldu mánudagsréttunum til sígildra rétta á borð við créme caramel, boeuf tartare og blini.
Allt er þetta sett fram á einstaklega lifandi og óvenjulegan hátt eins og Jóhönnu var svo einkar lagið, en hún lést af slysförum 1995.
Þetta er bók fyrir alla, eða eins og segir í formála höfundar: „Hratt og bítandi er því ekki aðeins bók fyrir þá sem leggja stund á matseld, heldur ættu allir aðrir en þeir sem ætla sér að fremja hægt og bítandi hungurmorð að geta haft af henni einhver not.“
Dóttir Jóhönnu, Álfheiður Hanna Friðriksdóttir bjó textann undir prentun og fékk þær Áslaugu Snorradóttur Ijósmyndara og Ólöfu Birnu Garðarsdóttur grafískan hönnuð til liðs við sig við gerð bókarinnar. Saman sáu þær til þess að koma hinu ævintýralega hráefni Jóhönnu í viðeigandi búning.