Maí 68

1.590 kr.

Frásögn

Höfundur: Einar Már Jónsson

228 bls. kilja

Útgáfuár: 2008

Flokkar:

Efni

Vorið 1968 var Einar Már Jónsson stúdent við Sorbonne og fylgdist með mótmælaaðgerðum stúdenta og verkamanna alveg frá upphafi, frá því að fyrstu rósturnar urðu við Sorbonne 3. maí, og var viðstaddur á ýmsu helstu sögustöðunum í París þessar umhleypingasömu vikur. Hann þóttist fljótlega sjá að þarna væru nokkur stórtíðindi að gerast, og fékk því þá hugmynd að skrifa einhvers konar frásögn af þeim sem birtust í Þjóðviljanum nokkurn veginn um leið.

Þessar greinar eru skrifaðar í hringiðunni miðri, fyrstu hlutarnir eru samdir áður en nokkur gæti séð fyrir hvaða stefnu atburðirnir myndu taka, og eru þær fyrst og fremst byggðar á því sem höfundur sá og heyrði sjálfur frá sínum sjónarhól í Latínuhverfinu og víðar í París, en fyllt upp með þeim frásögnum dagblaða og útvarpsstöðva eins og þær birtust jafnóðum. Fyrri hluti bókarinnar er byggður á þessum greinum.

Í seinni hlutanum veltir Einar Már fyrir sér atburðunum í nokkuð víðara samhengi, í ljósi þeirra upplýsinga sem nú eru komnar fram og með þeirri yfirsýn sem fjarlægðin veitir. Þar fer hann úr klæðum fréttamannsins og í búning sagnfræðingsins.

Í viðauka er birt viðtal við rithöfundinn Alain Robbe-Grillet sem Einar Már tók á bókmenntahátíð í Reykjavík haustið 1987 og varðar á vissan hátt efni bókarinnar. Í lokin er yfirlit yfir atburði ársins 1968 um víða veröld, svo að lesendur geti betur áttað sig á samhengi þess sem gerðist í Frakklandi það vor.

Bók Einars Más er ekki aðeins frásögn af atburðunum í maí 1968, hún er einnig góð leiðsögn fyrir þá, sem hafa áhuga á að kynnast grunnþáttum, sem enn móta franskt stjórnmálalíf. Að því leyti er hún góð leiðsögn um samtímann.
— Björn Bjarnason, Þjóðmál haust 2008

Maí 68 – Frásögn er skemmtileg bók, lipurlega rituð, af innsæi og þekkingu á efninu. Hún er nauðsynleg öllum áhugamönnum um sögu 20. aldar en á líka fullt erindi til almennra lesenda sem hafa gaman af spennandi og fróðlegum frásögnum af sögulegum atburðum.
— Guðmundur J. Guðmundsson, Saga 1. tbl. 2008

 

Kápumynd sýnir hluta af plakati sem gert var eftir frægri ljósmynd af Daniel Cohn-Bendit brosandi framan í lögreglumann í París í maí 1968.

 

Frekari upplýsingar

Þyngd 0,220 kg
ISBN

978-9979-63-085-2

Kápuhönnun

Gísli Már Gíslason

Prentun

Prentsmiðjan Oddi