Efni
Hér er á ferðinni fjórða smásagnasafn höfundar. Snemma árs 2001 hlaut hann fyrstu verðlaun í smásagnasamkeppni hjá vefgáttinni strik.is fyrir eina af sögunum í bókinni, Hverfa út í heiminn, en 350 sögur bárust í keppnina.
Önnur saga í bókinni, Bænheyrður, hlaut 2. verðlaun í smásagnasamkeppni dagblaðsins Dags og MENOR og birtist í Degi vorið 2000.
Um helmingur bókarinnar eru uppvaxtarsögur frá áttunda áratugnum en aðrar sögur gerast undir lok tuttugustu aldar og lýsa þá gjarnan fólki sem ólst upp á fyrrgreindu tímabili.
Flestar sagnanna fjalla á einn eða annan hátt um fjölskyldubönd: t.d. er sagt frá ungri konu sem endurtekur lífsmynstur móður sinnar án þess að gera sér grein fyrir því, önnur saga fjallar um ungan mann sem reynir óvenjulega aðferð til að jafna sig eftir sambúðarslit, fjölskyldumaður á framabraut hefur efasemdir um tryggð eiginkonu sinnar, unglingspiltur lifir í skugga látins bróður síns og ungum dreng þykir faðir sinn heldur misheppnaður í samanburði við skáksnillinginn Bobby Fischer.