Í mynd Gyðjunnar
Saga hennar í skáldskap, náttúru og trú
„Hún var hið ríkjandi afl alls lífs og fékk kraft sinn úr vötnum og uppsprettulindum, frá sól og tungli og rakri jörð. Í goðkynjuðum heimi hennar gekk tíminn eftir hringlaga brautum, ekki línulega. Í skapandi handverki frá tíma hennar sjáum við dínamískar hreyfingar, spírallaga form sem snúast og afbakast, snáka sem hringa sig saman og hlykkjast, hringi, hálfmána, nautshorn, fræ sem springa út og gróðursprota.“
Hér segir frá ýmsum myndum Gyðjunnar sem tengjast náttúru og dýrum, svo sem Augngyðjunni, Fuglagyðjunni og Tunglgyðjunni. Höfuðsetur Gyðjunnar varði lengst á Krít og víðar í Eyjahafi, en Indó-Evrópumenn lögðu undir sig ríki hennar um 1500 f. Krist. Þá koma fram gyðjur goðsagnaheimanna sem við þekkjum, en náttúran var dýrkuð í gyðjulíki öldum saman eftir að kristni komst á. Með kristni tekur María guðsmóðir sess Gyðjunnar miklu. En þar með er hin forna Gyðja ekki úr sögunni; á öllum öldum er hún við lýði, allt fram á okkar dag.
Á 19. öld birtist hin ævaforna tunglgyðja í lífi og ljóðum rómantísku skáldanna; við hittum hana fyrir í heimi enska skáldsins Johns Keats mitt í því náttúrufari sem honum var svo kært. „Dýrðarljómi og yndisleiki hafa horfið,“ segir hann, og „Pan er ekki lengur í augsýn.“ Fleiri skáld yrkja um tunglgyðjuna; skáldkonan merka, Emily Brontë, kallaði tunglskinsbjartar nætur „dag Díönu“ – en Díana var tunglgyðja Rómverja, og Benedikt Gröndal orti til himingyðjunnar.
Snemma á 20. öld birtist tunglið, La Lúna, víða í ljóðagerð spænska skáldsins Federicos García Lorca og lýsingar hans á náttúrufari Andalúsíu eru fullar af anda goðsagna, einkum grísk-rómverskra, en einnig annars staðar frá. Goðsagnir halda áfram að hafa áhrif og það verður endurvakning í Evrópu á dulhyggju eða okkúltisma. Dagur Sigurðarson yrkir til tunglgyðjunnar og Soffía Bjarnadóttir yrkir um lifandi goðsögur í Reykjavík á 21. öld.
Berglind Gunnarsdóttir (f. 1953) lagði stund á spænsku og málvísindi í Reykjavík og Madrid. Hún hefur birt skáldsögur, frumort ljóð og ljóðaþýðingar, einkum úr spænsku.
Útgáfudagur: 26. september 2022
ISBN 978-9979-63-147-7
Kilja, 82 bls.