Sett inn

Hlín og Tómas Ævar spjalla um Hilduleik

Það er útgáfuhóf á YouTube!

Hlín Agnarsdóttir og Tómas Ævar Ólafsson ræða um nýju bókina hennar, skáldsöguna Hilduleik, sem er spennandi og ærslafull en samt harmræn frásögn af konu sem sættir sig ekki við að þurfa að breyta lífsháttum sínum bara af því að vera komin á „aflifunaraldur“.

Hlín komst einmitt á aflifunaraldur í dag. Við sendum henni bestu hamingjuóskir!☺

Hér má fræðast um bókina.

Sett inn

Hilduleikur er hafinn!

Ný skáldsaga eftir Hlín AgnarsdótturHILDULEIKUR – er komin í flestar bókabúðir.

Algjört skilyrði að viðkomandi hafi áhuga á skáldskap og ljóðum stóð í auglýsingu sem Hilda setti inn á Facebook ári eftir að Ragnar féll frá. Þessi tilmæli fældu frá leiðinlegt fólk sem kunni bara á ryksugu og afþurrkunarklút og ekki var hægt að tala við um neitt annað en vöruverð og veðurfar.“ (bls. 10)

Hilda er ljóðelsk kona og býr ein í stórri íbúð á tólftu hæð og hefur í hyggju að búa þar áfram en öldrunariðnaðurinn í líki fyrirtækisins Futura Eterna, sem sér um skipulagningu ævikvöldsins, setur strik í reikninginn og atburðarásin tekur óvænta stefnu.

Framtíðarsýnin sem birtist í Hilduleik er napurleg, jafnvel óhugnanleg. Sumir segja að þessi skáldsaga flokkist undir dystópíur. En þrátt fyrir það er léttleiki í frásögninni og húmorinn skýtur stöðugt upp kollinum.

Sett inn

Þarf maður kannski að sækja um undanþágu …?

Það var skemmtileg tilviljun (í alvöru) að sama dag og Hilduleikur Hlínar Agnarsdóttur kom út birtist við hana viðtal í Vikunni og mynd af henni þekur forsíðu þessa 42. tölublaðs, 29. október 2020 (heitir það ekki að vera „cover girl“ í henni Ameríku?).

„Þarf maður kannski að sækja um undanþágu til að lifa?“

Svona hljóðar fyrirsögnin. Síðan segir:

„Hlín Agnarsdóttir var að senda frá sér skáldsöguna Hilduleik þar sem hún skapar óhugnanlega framtíð fyrir eldri borgara landsins, sem sviptir eru nánast öllum réttindum sínum þegar þeir ná ákveðnum aldri.

Hún segir söguefnið hafa komið til sín eftir dauða móður sinnar sem lést eftir sex mánuði á hjúkrunarheimili, þótt hún hefði fram að því verið ágætlega hress, ekki komin með elliglöp.

Sjálf verður Hlín sextíu og sjö ára í nóvember en hefur engin áform um að draga saman seglin þótt hún komist á aflifunaraldur, eins og hún kallar það í bókinni, langar í meira nám, ætlar að skrifa fleiri bækur og njóta þess að vera samvistum við manninn sem hún fann aftur eftir sextán ár. Hún er rétt að byrja.“