Skráð

MEYDÓMUR – Saga þjóðar!

Hlín Agnarsdóttir í Stúdíó 6 í Útvarpshúsinu.

Í Mannlega þættinum í morgun talaði hún við Gunnar Hansson um MEYDÓM, sögu „hennar litlu minnar“, sögu unglingsins sem gerði uppreisn, sögu þjóðar. Hlustið hér.

Skráð

Hlín ræðir um Meydóm á Hringbraut

Sigmundur Ernir Rúnarsson tekur Hlín Agnarsdóttur tali í Bókahorninu 7. nóvember 2021.

https://hringbraut.frettabladid.is/sjonvarp/b%C3%B3kahorni%C3%B0/7-november-2021/

Skráð

Tvær nýjar rafbækur eftir Hlín

Áðan fóru tvær nýjar rafbækur í loftið:

Meydómur og Hilduleikur

Hlín Agnarsdóttir
Skráð

Um elli og kapítalisma – Umsögn um Hilduleik

Hilduleikur

Ásgeir H. Ingólfsson

Gamansöm dystópía um kapítalismann og ellina

Hildu­leik­ur er fynd­in og hug­vekj­andi bók um ell­ina; bæði um hvernig sam­fé­lag­ið kem­ur fram við gam­alt fólk í fram­tíð, sem við sjá­um al­veg vísi að í nú­tím­an­um, en líka um lífs­þorsta, visku og bar­áttu­anda magn­aðr­ar konu, sem sætt­ir sig ekki við all­ar klisj­urn­ar sem við stimpl­um henn­ar ævi­skeið með.

Hilda er ljóðelskur ljósmyndari sem er komin á efri ár og býr í rúmgóðri blokkaríbúð. Of rúmgóðri, að sögn fyrirtækisins Futura Eterna – Eilíf framtíð – sem vill koma henni fyrir í ellikúpu, svona tímanlega áður en hún kveður endanlega. En Hilda er kraftmikil og þrjósk og hefur engan áhuga á að láta eitthvert fyrirtæki úti í bæ ráðskast með sína framtíð.

Fyrsta skrefið er þó að losa dýrmæta fasteignina úr klóm eldri borgara. Hilda fær bréf þar sem henni er tilkynnt að „Viðskiptamaður er komin á Aflifunareyri (AFL) og býr ein/n í 137 fermetra blokkaríbúð en nýtir ekki allt rýmið. Innan skamms leggst því fermetraskattur á umframfermetrana en samkvæmt lögum er miðað við að einstaklingur þurfi ekki nema 12 fermetra til að komast vel af.“

Lausnin er að bjóða Braga að leigja hjá henni – en fyrirtækið er augljóslega rétt að byrja að þrengja að henni. Futura Eterna er með þjónustusamning við velferðarráðuneytið, með fyrirtækinu hefur pilsfaldakapítalisminn í raun náð fullkomnun sinni – fyrirtækið á fólk í raun í ellinni, í krafti lagaákvæða ættaðra frá ríkinu. Ævikvöldið hefur verið einkavætt.

Eigandinn er Oddur Oddsson, sannkallað atvinnuskáld. Rétt eins og Hilda er hann duglegur ljósmyndari – myndar fátæk börn á ferðum sínum um heiminn í gríð og erg. En það er einkennilegt siðleysi sem einkennir hann, hann virðist eiga til samlíðan en er of sjálfmiðaður til að finna henni útrás í öðru en eigin list og uppbyggingu eigin viðskiptaveldis, sem í raun tekst að græða á tá og fingri á tilfinningum elliáranna, bæði harmi þeirra og gleði. En kastar þeim á glæ þegar harmurinn er orðinn óarðbær.

Heimssýn hans kristallast ágætlega í því þegar hann lofar að „búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld, sérstaklega þeim sem hafa átt nístandi og kalda ævi eða búið við fátækt og skort. Slíka ævi þarf ekki að framlengja.“

Hann er heillaður af eymd annarra, eymd heimsins – en um leið of blindur til að sjá að fólk sem lifir í örbirgð getur líka átt vonir og drauma, og á jafnvel alveg skilið notalegt ævikvöld.

Oddur er afsprengi samfélags þar sem kapítalisminn hefur unnið fullnaðarsigur – slíkan fullnaðarsigur að skarpir hugsuðir eins og hann finna meira að segja samkenndinni farveg í því æðsta markmiði að græða meiri peninga. Hann veit hins vegar að „tilfinningar eiga ekki heima í vel skipulögðu fyrirtæki, tilfinningar eru oft ekkert annað en uppspuni, leikaraskapur eða hystería.“

Þetta birtist í starfsmönnum hans og þrátt fyrir allt er hann ekki eftirminnilegasta illmenni bókarinnar, það er miklu frekar tengdadóttirin Jóhanna.

Hilda á nefnilega þrjú börn, þótt sambandið við þau sé ekki sem best. Örlög dætranna tveggja eru lengst af dularfull – en sonurinn er hálfgerð mannleysa. Það kemur því í hlut Jóhönnu, sem er háttsettur starfsmaður í velferðarráðuneytinu (sem er í raun undir hælnum á Futura Eterna), að eiga í samskiptum við Hildu. Hún minnir mest á Ratched hjúkrunarkonu í Gaukshreiðrinu; óbifanleg og ómanneskjuleg kerfiskona sem er ekki bara hluti af kerfinu, hún nánast líkamnar það með kreddufestu sinni. En samt mjög íslensk útgáfa af þeirri erkitýpu, maður finnur bókstaflega dugnaðarlega flíspeysulyktina af henni.

Jú, Hilda mín, ég veit sko alveg hvað þunglyndi er, oft er það ekkert annað en þögul heimtufrekja í bland við egóisma. Stundum kallað borgaraleg óhlýðni. Af hverju í ósköpunum getur fólk ekki bara sætt sig við lífið eins og það er? Þá myndi öllum líða betur.

Sætt sig við lífið, sætt sig við kerfið eins og það er. En það gerir Hilda sannarlega ekki. Hún er uppreisnarseggur – en um leið drepfyndin. Það sem Jóhanna misskilur sem þusandi gamalmenni er einmitt Hilda að sýna æskuþrótt sem er miklu meiri en Jóhanna á til, þrátt fyrir alla hennar atorku – í klisjubókum mætti alveg halda það að Hilda sé södd lífdaga, búin að koma börnum á legg og missa manninn sinn og hætt að vinna, en það sem einkennir hana öðrum persónum fremur er lífsþorstinn sjálfur, sem minnkar ekkert þó árunum fjölgi.

Og sannarlega talar bókin inn í tíma þar sem heimsfaraldur geisar sem herjar helst á gamalt fólk. Heim þar sem gamalt fólk verður eldra og eldra og fleira og fleira á meðan barneignir dragast saman – reikningsdæmi sem við þurfum að finna svar við, en bókin sýnir ágætlega hversu skakkt svar kapítalismans er alltaf líklegt til að verða. Hilduleikur kallast á vissan hátt líka á við nýlega sjónvarpsseríu, Upload, þar sem sjálft framhaldslífið hefur verið gert að munaði hinna ríku – og bæði verk sýna hvernig hugviti er spillt þegar eina takmarkið er að græða, því þá verða allir sem ekki er hægt að græða á afgangsstærðir, ásættanlegur fórnarkostnaður í augum Mammons.

Sjá: https://stundin.is/grein/12424/

Skráð

Hlín og Hilda í leik hjá Sigmundi Erni

Hilduleikur

Sigmundur Ernir Rúnarsson ræðir við Hlín Agnarsdóttur á Hringbraut um nýju bókina hennar, Hilduleik.

Skráð

Hlín og Tómas Ævar spjalla um Hilduleik

Hilduleikur

Það er útgáfuhóf á YouTube!

Hlín Agnarsdóttir og Tómas Ævar Ólafsson ræða um nýju bókina hennar, skáldsöguna Hilduleik, sem er spennandi og ærslafull en samt harmræn frásögn af konu sem sættir sig ekki við að þurfa að breyta lífsháttum sínum bara af því að vera komin á „aflifunaraldur“.

Hlín komst einmitt á aflifunaraldur í dag. Við sendum henni bestu hamingjuóskir!☺

Hér má fræðast um bókina.

Skráð

Hlín í Smartlandi

Í dag birtist á mbl.is skemmtilegt viðtal við Hlín Agnarsdóttur, höfund bókarinnar Hilduleikur.

Skráð

Hilduleikur er hafinn!

Ný skáldsaga eftir Hlín AgnarsdótturHILDULEIKUR – er komin í flestar bókabúðir.

Algjört skilyrði að viðkomandi hafi áhuga á skáldskap og ljóðum stóð í auglýsingu sem Hilda setti inn á Facebook ári eftir að Ragnar féll frá. Þessi tilmæli fældu frá leiðinlegt fólk sem kunni bara á ryksugu og afþurrkunarklút og ekki var hægt að tala við um neitt annað en vöruverð og veðurfar.“ (bls. 10)

Hilda er ljóðelsk kona og býr ein í stórri íbúð á tólftu hæð og hefur í hyggju að búa þar áfram en öldrunariðnaðurinn í líki fyrirtækisins Futura Eterna, sem sér um skipulagningu ævikvöldsins, setur strik í reikninginn og atburðarásin tekur óvænta stefnu.

Framtíðarsýnin sem birtist í Hilduleik er napurleg, jafnvel óhugnanleg. Sumir segja að þessi skáldsaga flokkist undir dystópíur. En þrátt fyrir það er léttleiki í frásögninni og húmorinn skýtur stöðugt upp kollinum.

Skráð

Þarf maður kannski að sækja um undanþágu …?

Það var skemmtileg tilviljun (í alvöru) að sama dag og Hilduleikur Hlínar Agnarsdóttur kom út birtist við hana viðtal í Vikunni og mynd af henni þekur forsíðu þessa 42. tölublaðs, 29. október 2020 (heitir það ekki að vera „cover girl“ í henni Ameríku?).

„Þarf maður kannski að sækja um undanþágu til að lifa?“

Svona hljóðar fyrirsögnin. Síðan segir:

„Hlín Agnarsdóttir var að senda frá sér skáldsöguna Hilduleik þar sem hún skapar óhugnanlega framtíð fyrir eldri borgara landsins, sem sviptir eru nánast öllum réttindum sínum þegar þeir ná ákveðnum aldri.

Hún segir söguefnið hafa komið til sín eftir dauða móður sinnar sem lést eftir sex mánuði á hjúkrunarheimili, þótt hún hefði fram að því verið ágætlega hress, ekki komin með elliglöp.

Sjálf verður Hlín sextíu og sjö ára í nóvember en hefur engin áform um að draga saman seglin þótt hún komist á aflifunaraldur, eins og hún kallar það í bókinni, langar í meira nám, ætlar að skrifa fleiri bækur og njóta þess að vera samvistum við manninn sem hún fann aftur eftir sextán ár. Hún er rétt að byrja.“