Í morgun birti Morgunblaðið fróðlegt viðtal við Heimi Sindrason um viðburðinn í Menntaskólaselinu 1965 og bókina Styrjöldin í Selinu sem kom út 19. janúar s.l.
Tag: MR
Óvenjuleg upprifjun
Í febrúar 1965 var þriðja heimsstyrjöldin sett á svið í Menntaskólaselinu í Reykjadal inn af Hveragerði. Atburðurinn brenndi sig í vitund grandalausra nemendanna, þáverandi fjórðubekkinga í MR, þannig að enginn er samur eftir, meira en hálfri öld síðar.
Þessi einstæða reynsla unglinganna má heita fáheyrð á Íslandi og jafnast helst á við upplifun bandarískra útvarpshlustenda skömmu fyrir seinni heimsstyrjöld þegar Orson Welles sendi út Innrásina frá Mars. Uppátækið í Selinu varð að blaðamáli og vakti marga til reiði.
Áratugum síðar tók sú hugsun að leita á Heimi Sindrason, einn af fjórðubekkingum ársins 1965, að þessi einstæða lífsreynsla ætti ekki að liggja í láginni og mætti ekki gleymast. Hann linnti ekki látum fyrr en til var orðin dálítil ritnefnd og afraksturinn er þessi bók, Styrjöldin í Selinu, sem er prýdd fjölmörgum ljósmyndum. Í bókinni rifja þolendur og gerendur upp viðburðinn og skoða í víðara samhengi.
Meðal „fórnarlambanna“ í Selinu var Ágúst Guðmundsson, síðar kvikmyndagerðarmaður. Þessi eftirminnilega Selsferð varð síðar kveikjan að sjónvarpsmynd hans, Skólaferð, sem frumsýnd var í Sjónvarpinu 1978.
Ágúst fékk hugmyndina að myndinni árið 1971, sex árum eftir atburðinn, og tók þá viðtöl við fjölda nemenda sem voru í ferðinni. Þau eru birt í bókinni og varpa merkilegu ljósi á uppákomuna sem varð æsilegt blaðaefni næstu daga á eftir.
Þá eru birtar samtímadagbókarfærslur hans og Ásgeirs Sigurgestssonar sálfræðings. Í öðrum kafla setur Ásgeir atburðinn í samhengi við sambærilega viðburði erlendis og hugmyndir sálfræðinga um hópsefjun.
Nokkrir nemendur líta til baka og setja hugleiðingar sínar á blað. Rætt er við Eirík Haraldsson kennara, sem var í ferðinni, og Sigurður St. Arnalds verkfræðingur segir frá því hvernig hugmyndin að útvarpsgabbinu varð til.
Laugardaginn 19. janúar 2019 flykktust gamlir MR-ingar og aðrir góðir gestir í Bíó Paradís í Reykjavík til að fagna útkomu bókarinnar og horfa á Skólaferð sem var sýnd í fyrsta sinn í kvikmyndahúsi – og salurinn fylltist! Meðal gesta voru Vigdís Finnbogadóttir, Ragnar Arnalds og Valdimar Örnólfsson. Þetta var ógleymanleg stund.
Bókin fæst í flestum bókabúðum og í netverslun Ormstungu.