Skráð

Babúska komin út!

Babúska - reimleikar og voðaverk

Í dag kom út nýja bókin hennar Hallveigar Thorlacius, Babúska

Við fögnum útgáfunni í Gunnarshúsi mánudaginn 3. júlí kl. 17:30. Hallveig segir okkur frá tildrögum að þessari fyrstu skáldsögu sem hún skrifar fyrir fullorðna lesendur.

Sigrún Valbergsdóttir leikstjóri og leiðsögumaður les valda kafla úr bókinni og Sigríður Thorlacius syngur sól í hjörtu viðstaddra.

Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. 

Um söguna:

Ung stúlka verður fyrir bíl fyrir framan Þjóðleikhúsið og lætur lífið. Ökumaðurinn flýr af vettvangi. Eina vitnið að þessum atburði er Svetlana, rússneskur bókmenntafræðingur sem vinnur við þrif í opinberum byggingum. Hún hringir í neyðarnúmerið en hjólar burt.  Lögreglukonan Fanney kemur á vettvang. Við rannsókn málsins ákveður hún vegna ágreinings við yfirmann sinn að snúa sér að öðru máli sem komið er upp á bernskuslóðum hennar í Urriðavík. Kona hefur fundist myrt úti í fjárhúsi og fleiri morð fylgja í kjölfarið. Böndin berast að Birtu sem hengdi sig úti í fjósi fyrir hundrað árum. Flestir hafa séð vofunni bregða fyrir og öll sveitin stendur á öndinni.

Austur í Síberíu fréttir Lena að dótturdóttir hennar hafi fundist dáin í Reykjavík. Hún sér sig knúna til að fara til Íslands. Þegar hún fréttir af innrás Rússa í Úkraínu segist hún ekki eiga neitt land. Nágranni Svetlönu, Pétur, býður henni að búa hjá sér þangað til djöfulskapnum linni.

Hvað eiga dauðsföllin í Reykjavík sameiginlegt með morðunum í Urriðavík? Lena tekur þátt í að greiða úr flækjunni.