Skráð

Þarf maður kannski að sækja um undanþágu …?

Það var skemmtileg tilviljun (í alvöru) að sama dag og Hilduleikur Hlínar Agnarsdóttur kom út birtist við hana viðtal í Vikunni og mynd af henni þekur forsíðu þessa 42. tölublaðs, 29. október 2020 (heitir það ekki að vera „cover girl“ í henni Ameríku?).

„Þarf maður kannski að sækja um undanþágu til að lifa?“

Svona hljóðar fyrirsögnin. Síðan segir:

„Hlín Agnarsdóttir var að senda frá sér skáldsöguna Hilduleik þar sem hún skapar óhugnanlega framtíð fyrir eldri borgara landsins, sem sviptir eru nánast öllum réttindum sínum þegar þeir ná ákveðnum aldri.

Hún segir söguefnið hafa komið til sín eftir dauða móður sinnar sem lést eftir sex mánuði á hjúkrunarheimili, þótt hún hefði fram að því verið ágætlega hress, ekki komin með elliglöp.

Sjálf verður Hlín sextíu og sjö ára í nóvember en hefur engin áform um að draga saman seglin þótt hún komist á aflifunaraldur, eins og hún kallar það í bókinni, langar í meira nám, ætlar að skrifa fleiri bækur og njóta þess að vera samvistum við manninn sem hún fann aftur eftir sextán ár. Hún er rétt að byrja.“