„Ég er búinn með tvær bækur úr jólabókaflóðinu og þær eru hvor úr sínu sólkerfinu, önnur karllæg svo af tekur en hin að sama skapi kvenlæg; þetta eru Biluð ást eftir Sigurjón Magnússon og Aldrei nema vinnukona eftir Sveinbjörgu Sveinbjörnsdóttur.
Sigurjón er í fámennum … afar fámennum hópi … afbragðshöfunda á Íslandi og þótt rit hans hafi stundum flogið undir ratsjána á hann sinn hulduher einlægra aðdáenda og nýtur sérstakrar virðingar fyrir frábæran stíl og meitluð efnistök.
Biluð ást fjallar um óheflaða harðbalamenn sem ala sinn aldur á hjarni samfélagsins, reiða menn og hefnigjarna, hörkutól og glæpadólga, en þótt þeim skíni lítið gott af veröldinni sækjast þeir eins og annað fólk eftir auði, ást og vináttu, þótt sjaldnast verði þeim mikils ágengt.
Þótt sagan sjálf sé karllæg hverfist líf karlmanna mjög um konur eins og fara gerir, en þótt þær konur, fullorðnar eða á barnsaldri, skipi dýran sess er atburðarásin sjaldnast séð af þeirra sjónarhóli … fúsar jafnt sem ófúsar ráða þær örlögum karlanna en berast þó sem sprek á öldum mannhafsins, eftirsóttar, seinheppnar og lánlitlar.
Biluð ást er geysispennandi og slakar hvergi á en hún er ekki hentug bók fyrir hina veiklunduðu, hún er fyrir alla þá sem unna góðum stíl og þola sannferðuga, miskunnarlausa frásögn af þeim meðbræðrum okkar og systrum sem velkjast á skuggalendum samfélagsins.“
– Baldur Hermannsson, facebook
„Ég er ekki viss um að Sigurjón Magnússon, höfundur sögunnar Biluð ást, yrði sáttur við merkimiðann „spennusaga“ á sína sögu og er hún þó mjög spennandi. Rakin er örlagarík ævi dæmds morðingja, lýst harðneskjulegu lífi á jaðri samfélagsins og ómótstæðilegri hefndarfýsn. Ljósið í myrkrinu er vinátta og frændsemi sem aðalpersónan nýtur.
Sigurjón hefur lengi notið virðingar fyrir skáldsögur sínar en hefur þó ekki verið áberandi á metsölulistum eða bókmenntaumræðunni undanfarin ár. Biluð ást sker sig frá fyrri verkum hans meðal annars fyrir afþreyingargildið. Hún er gífurlega spennandi og dramatísk og rígheldur lesandanum. Hér er klárlega komið efni í metsölubók ef jólabókamarkaðurinn hefur á annað borð svigrúm til að bregðast við óvæntum tíðindum. Hver sá sem les þessa bók á í vændum sterka upplifun. Óvænt negla, þessi saga.“
– Ágúst Borgþór Sverrisson, dv.is