Dagný Kristjánsdóttir segir á facebook í hugleiðingu um samtal Þrastar Helgasonar við Hannes Hólmstein Gissurarson í útvarpinu:
„… Hann talaði ekkert um hina dýrlegu einkavæðingu sem sýndi sig þegar Covid-bylgjan skall á einkareknu sjúkraheimilin í Bretlandi og Svíþjóð. Það hefði nú verið fróðlegt. En kannski ónauðsynlegt því að Hlín Agnarsdóttir hefur dregið upp miklu ógurlegri og áhrifameiri mynd af einkavæðingu ellinnar í bók sinni Hilduleikur, þar sem eldri kona, ekkja, stendur frammi fyrir því að sonur hennar og tengdadóttir eru erindrekar einkafyrirtækis sem ásælist íbúðina hennar og yfirráð yfir lífi hennar í framhaldi af því sem þá tekur við. Hilduleikur er framtíðarsaga, dystópía, sem kallast á við 1984 eftir Orwell en hún er líka fyndin og kaldhæðin og minnti svolítið á Lovestar hvað það varðar.
Fyrst og fremst er hún hörð ádeila á þá brauðmolameðferð sem ræður afstöðu valdhafa til eldri borgara landsins og hugmyndanna um það hvers konar lífi þeir eigi rétt á! Til hamingju með bókina, Hlín – og hugmynd að jólagjöf gæti verið að gefa ættingjum sem komnir eru yfir sextugt þessa bók í jólagjöf!“
Sölvi Björn Sigurðsson skrifar á sama vettvangi: „Ekki langt kominn með Hilduleik eftir Hlín Agnarsdóttur en hún lofar sannarlega góðu.“ Ásgeir H. Ingólfsson svarar: ,,Er einmitt búinn með sex bækur og af þeim standa Bróðir, Truflunin og Hilduleikur upp úr.“